SÍ gerir hlé á gjaldeyriskaupum: Væntingar, væntingar, væntingar

SÍ gerir hlé á gjaldeyriskaupum: Væntingar, væntingar, væntingar

Seðlabanki Íslands tilkynnti á föstudag að hann hefði ákveðið að gera hlé á reglulegum gjaldeyriskaupum sínum. Hann hefur síðan í september árið 2010 keypt hálfa milljón evra af hverjum viðskiptavaka á millibankamarkaði með gjaldeyri vikulega og tvölfaldaði það magn í lok júlí síðastliðins. Frá því að bankinn hóf reguleg kaup á gjaldeyrismarkaði þá hefur hann náð að safna 60 mö.kr. í óskuldsettan forða, en í dag eru erlendar skuldbindingar Seðlabankans um 39 ma.kr. umfram eignir.

Ákvörðun Seðlabankans á föstudag rennir stoðum undir þá skoðun okkar að bankinn hafi tilhneigingu til að grípa til aðgerða þegar virði evru er við það að brjóta 170 krónamúrinn þrátt fyrir að leikáætlun bankans sé e.t.v. ekki eins augljós. Eins og við höfum áður bent á (sjá Krónan rekur sig í gólffjalirnar) þá greip Seðlabankinn síðast til inngripa í mars 2012 einmitt þegar virði evrunnar nálgaðist 170. Það má að auki velta fyrir sér hvort þak yfir gengi krónunnar sé þá á því róli sem hún var á þegar bankinn ákvað að gefa í gjaldeyriskaup sín í sumar.

Tvöföld skilaboð – skortur á leiðsögn
Í öllu falli er ljóst að aðgerð á borð við þessa verkar með tvennum hætti, líkt og flest annað sem seðlabankar gera. Í fyrsta lagi hefur hún bein áhrif í gegnum gjaldeyrismarkaðinn, og í öðru lagi hefur hún óbein áhrif í gegnum væntingar markaðsaðila sem mögulega breyta hegðun sinni vegna aðgerðarinnar. Jafnvel þótt beinu áhrifin séu lítil, líkt og vænta má um hlé Seðlabankans á gjaldeyriskaupum sínum í þessu tilviki, getur væntingafarvegurinn þannig magnað áhrifin upp.
Þeir sem hafa fylgst með aðgerðum og inngripum seðlabanka víða um heim á undanförnum árum vita að þar getur skilið á milli feigs og ófeigs hvort þær hafi tilætluð áhrif á væntingar. Slíkar aðgerðir eru áhrifamestar þegar bein áhrif og óbein styðja hvor við önnur. En er það tilfellið hér?

Sjá umfjöllun í heild sinni hér: SÍ gerir hlé á gjaldeyriskaupum.pdf