Spáum 1% verðbólgu í febrúar

Spáum 1% verðbólgu í febrúar

Greiningardeild spáir 1% hækkun vísitölu neysluverðs (VNV) í febrúar. Gangi spáin eftir mun tólf mánaða verðbólga áfram mælast 4,2%. Bráðabirgðaspá greiningardeildar fyrir næstu mánuði gerir ráð fyrir 1,1% hækkun VNV í mars, 0,5% hækkun í apríl og 0,4% hækkun í maí. Gangi bráðabirgðaspá okkar eftir mun ársverðbólga mælast 4,4% í maí.Í febrúar- og marsmánuði dregur jafnan úr útsöluáhrifum sem leiðir til hækkunar á verði, m.a. fatnaðar og skóa. Áhrifin voru umtalsvert sterkari í janúar (-0,9%) en við höfðum gert ráð fyrir og má ætla að útsölur gangi til baka að fullu í febrúar og mars og hafi því samtals 0,9% áhrif til hækkunar VNV.

Greiningardeild telur að gengisáhrifa gæti áfram við mælingu VNV í þessum mánuði líkt og í janúar síðastliðnum. Almennt er talið að gengislekinn sé um 0,3-0,4% af 1% gengisbreytingu. Við áætlum að um 0,4% af veikingu krónunnar frá því í desember hafi skilað sér í janúarmælingu Hagstofunnar og má því gera ráð fyrir að ríflega 1% eigi eftir að skila sér út í verðlagið á næstu 12-18 mánuðum að öðru óbreyttu.

Sjá umfjöllun í heild sinni: Verðbólguspá febrúar 2013