Verðlag hækkaði um 1,6% í febrúar

Verðlag hækkaði um 1,6% í febrúar

Umtalsverð gengisáhrif lituðu verðbólgutölurnar fyrir febrúarmánuð en vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 1,64% í febrúar frá því í janúar. Við höfðum spáð 1% hækkun og spár helstu greiningaraðila lágu á bilinu +1,0% til +1,2%. Frávik frá spá okkar má einna helst rekja til þess að við höfðum gert ráð fyrir mun hóflegri áhrifum vegna útsöluloka. Þá voru gengisáhrifin eins og áður kom fram umtalsverð en við höfðum búist við að gengislekinn myndi dreifast jafnar á næstu 12 mánuði. Ársverðbólgan hækkar úr 4,2% í 4,8% eftir mælinguna. Í mars ganga útsölur að öllu leyti tilbaka og má því búast við 0,9% verðbólgu á milli mánaða m.v. bráðabirgðaspá okkar. Þrátt fyrir styrkingu krónunnar síðustu daga má enn búast við gengisáhrifum til hækkunar verðlags eftir mikla veikingu síðustu sex mánuðina þar á undan.

Uppfærð bráðabirgðaspá okkar fyrir næstu mánuði felur í sér að VNV hækkar um  0,9% í mars, 0,4% í apríl og 0,2% í maí. Ef sú spá raungerist mun ársverðbólga mælast 4,5% í maí nk.

Engin áhrif á vaxtaákvörðun 20. mars nk.
Líkt og seðlabankastjóri lagði áherslu á í inngangsorði sínu á fundi efnahags- og viðskiptanefndar síðastliðinn mánudag hélt peningastefnunefnd nafnvöxtum óbreyttum í desember og febrúar, og hann telur að horfur um seðlabankavexti séu í stórum dráttum óbreyttar. Við síðustu  vaxtaákvörðun gaf nefndin í skyn að nafnvöxtum bankans yrði haldið óbreyttum a.m.k. í bili þar sem áhyggjur hennar beinast í auknum mæli að slakanum í hagkerfinu. Þetta er að vísu háð óbreyttu gengi krónunnar, að launabreytingar séu samrýmanlegar framleiðniaukningu og að ríkisfjármálin verði ekki keyrð fram úr hófi.

Virkir raunvextir Seðlabankans eru nú um 0,5% og gerum við ráð fyrir að versnandi hagvaxtarhorfur skv. nýjustu spám Seðlabankans vegi áfram þungt í ákvörðun peningastefnunefndar 20. mars nk. M.ö.o. teljum við að öðru óbreyttu (m.a. að krónan haldi áfram í styrkingarfasa) að nefndin haldi nafnvöxtum bankans óbreyttum þrátt fyrir að ársverðbólgan á fyrsta ársfjórðungi 2013 verði að öllum líkindum vel yfir 4,0% spá í síðustu Peningamálum. T.a.m. þyrfti verðbólgan að vera -0,73% í mars til að spá Seðlabankans gangi eftir.

Sjá umfjöllun í heild sinni: Verdbolga_i_feb13_20130227.pdf