Spáum óbreyttum stýrivöxtum og 0,8% verðbólgu í mars

Spáum óbreyttum stýrivöxtum og 0,8% verðbólgu í mars

Greiningardeild spáir óbreyttum vöxtum við næstu vaxtaákvörðun peningastefnunefndar þann 20. mars næstkomandi. Þrátt fyrir að verðbólgutölur sem birtust í febrúar hafi verið í hærri kantinum, svo vægt sé til orða tekið, þá hefur Seðlabankinn verulegar áhyggjur af raunhagkerfinu og teljum við að það muni vigta þyngra að þessu sinni. Seðlabankastjóri hefur jafnframt gefið sterklega til kynna að Seðlabankinn hafi lagt frá sér vaxtatækið a.m.k. í bili og reyni í síauknum mæli að nýta gengisfarveg peningastefnunnar beint. Við teljum því að Seðlabankinn muni beita inngripum á gjaldeyrismarkað í auknum mæli fremur en vöxtum til að hafa áhrif á væntingar og slá á verðbólgu.

Við spáum 0,8% hækkun vísitölu neysluverðs (VNV) í mars sem þýðir að tólf mánaða verðbólga mun mælast 4,6% ef satt reynist. Drifkraftur verðbólgunnar eru útsöluáhrif sem ganga til baka og áframhaldandi gengisáhrif vegna veikingar krónunnar á seinni helmingi síðastas árs. Styrking krónunnar á síðustu vikum hefur enn lítil áhrif en sennilega mun örla fyrir henni í apríl. Bráðabirgðaspá greiningardeildar fyrir næstu mánuði bendir til þess að það verði 0,4% hækkun VNV í apríl, 0,1% hækkun í maí og 0,6% hækkun í júní. Gangi bráðabirgðaspá okkar eftir mun ársverðbólga mælast 4,4% í júní.

Sjá umfjöllun í heild sinni: verdbolgu_og_styrivaxtaspa_20130318.pdf