Engin óvænt tíðindi: Vextir óbreyttir

Engin óvænt tíðindi: Vextir óbreyttir

Peningastefnunefnd tilkynnti um óbreytta stýrivexti á vaxaákvörðunarfundi í morgun. Í raun voru skilaboðin þau sömu og á síðasta fundi (með ögn meiri áherslu á að það sé að hægja á efnahagsbatanum), vaxtatækinu verður beitt á nýjan leik ef verðbólgan gengur hægar niður en spáð var.

Að okkar mati virðist því vera tvennt sem togast á í hugum nefndarmanna:

1) Veikari hagvöxtur en spáð var í síðustu peningamálum, en hann mældist 1,6% á árinu 2012, sem er langt undir þeim 2,2% vexti sem bankinn hafði spáð. Á móti kemur að nefndin lýsir engum sérstökum áhyggjum af áframhaldi efnahagsbatans, heldur tekur þvert á móti fram að leiðandi vísbendingar af vinnumarkaði séu í samræmi við hægan bata. Þá telur nefndin að þrátt fyrir hægagang í hagkerfinu sé slakinn í hagkerfinu enn að minnka. Þrátt fyrir lélegar hagvaxtartölur á síðasta ári er því ekkert í tóni nefndarinnar sem bendir til þess að henni þyki þurfa að koma til móts við hagkerfið með slakari peningastefnu, þótt henni liggi sennilegast ekki á að herða hana heldur í ljósi aðstæðna.
 
2) Meiri verðbólga en spáð var í síðustu Peningamálum, eða um 4,8% í febrúar, en spá bankans gerði ráð fyrir að bólgan myndi hjaðna í 4% á fyrsta fjórðungi ársins. Það virðist því allt benda til þess að bankinn sé enn á ný að vanspá verðbólgu verulega. Eflaust hefur einhverja nefndarmenn klæjað í gikkfingurinn að hækka vexti vegna þessa. Hins vegar er tekið fram að gengi krónunnar hafi hækkað síðan í febrúar, en styrkingin nemur um 7% gagnvart evru síðan krónan var sem veikust í lok janúar. Það hefur eflaust orðið til þess að nefndarmenn yrðu rólegri um verðbólguhorfurnar framundan.

Sjá umfjöllun í heild sinni: 200313 vaxtaákvörðun.pdf