Efnahagshorfur og afnám hafta

Efnahagshorfur og afnám hafta

Föst í fyrsta gír: Efnahagshorfur 2013-2015
Hagkerfið er á krossgötum og það eru tvær leiðir í boði. Ein leið er að við höldum áfram á sömu braut, þá er sú hætta fyrir hendi að við festumst í fyrsta gír. Hér verði lítill hagvöxtur í haftaskjóli, fjárfesting áfram frá lágum grunni og áframhaldandi óvissa og óöryggi með heilsu hagkerfisins. Önnur leið sem er í boði er að við setjum í fimmta gír, við náum að skapa hér traust og trú á íslensku efnahagslífi sem jafnframt stuðlar að því að fjárfesting taki við sér. Fjárfesting er frumforsenda þess að við rjúfum þann vítahring sem er milli hægagangs við afnám hafta og lítils hagvaxtar.

Framundan eru mikilvæg verkefni sem þarf að leysa á komandi misserum. Verkefnalistinn er þessi: Leysa snjóhengjuvandann, lengja í erlendum lánum, grynnka á skuldum ríkissjóðs, skapa hér umgjörð um hagstjórnina sem stuðlar að auknum stöðugleika og koma gjaldeyrisskapandi fjárfestingu í gang. Að öllu óbreyttu þá eru hagvaxtarhorfur hér fremur daprar.

Föst í fyrsta gír: Efnahagshorfur 2013-2015

Afnám hafta: Fjarlægur draumur eða nálægur veruleiki?
Í erindi um afnám hafta leitaðist Greiningardeild við að svara því hvaða skilyrði þyrftu að vera fyrir hendi áður en hægt er að losa höft, hversu langt þjóðarbúið er frá því að uppfylla þau, hvaða aðgerða er hægt að grípa til svo þau verði uppfyllt sem fyrst, og hvort slíkar aðgerðir séu raunhæfar. Til grundvallar svörunum við þessum spurningum lagði deildin nýlegt mat Seðlabanka Íslands á erlendri stöðu þjóðarbúsins og greiðslujöfnuði komandi ára, og reyndi þar með að skoða stöðuna frá sjónarhóli þeirra stjórnvalda sem munu á endanum taka ákvörðun um afnám hafta.

 
Niðurstaða matsins er sú að halda þarf vel á spöðunum við uppgjör gömlu bankanna, og reyna að vinna þannig úr málum að stafli „óþolinmóðra“ króna í eigu útlendinga verði minnkaður sem mest, og afborgunarferill erlendra lána þjóðarbúsins lengdur. Að þessum markmiðum þarf þó að vinna með nægilega skipulegum hætti að tiltrú fjárfesta á íslenskt stofnanaumhverfi verði ekki fyrir skakkaföllum. Takist það væri stórt skref stigið við afnám hafta. Þá er ljóst að árangur við losun hafta ræðst að ýmsu leyti af ytri þáttum, t.d. þróun erlendrar fjárfestingar og viðskiptakjara.

Ef hægt verður að skapa nægilega mikla trú á íslenska hagkerfið sem fjárfestingarkosti í kjölfarið, og afnámsferlið nýtur nægilega mikils trausts til að fjárfestar óttist ekki gengisfall um leið og höftum sleppir, er hægt að ganga hratt til verks við losun hafta – t.d. með stiglækkandi útgönguskatti sem dreifir útflæði yfir lengri tíma.

Afnám hafta: Fjarlægur draumur eða nálægur veruleiki?

Hér má sjá upptöku af fundinum.