Enn óvissa í kringum Íbúðalánasjóð

Enn óvissa í kringum Íbúðalánasjóð

Skýrsla starfshóps um framtíðarhorfur og framtíðarhlutverk Íbúðalánasjóðs (Íls) var birt á þriðjudag. Að okkar mati svarar skýrslan litlu um hvernig lagfæra skuli vanda Íls; uppgreiðsluáhættu, útlánaáhættu og rekstraráhættu, en þó var hlutverk hópsins að gera tillögur með það að markmiði að rekstur sjóðsins geti staðið undir sér. Þá sárvantar meiri talnagreiningu og efnislegan rökstuðning í skýrsluna.

Hópurinn leggur til að dregið verði úr ríkisábyrgð og að Íls verði fjármagnaður af óstofnuðum heildsölubanka sem á að vera í eigu Íls og annarra lánastofnana og á ekki að vera rekinn með hagnaðarkvöðum. Formaður hópsins hefur opinberlega látið uppi skoðun sína að sú hugmynd teljist varla raunhæf nema stærstur hluti bankanna komi að stofnun heildsölubankans. Mjög forvitnilegt verður að sjá hvernig sú hugmynd verður útfærð þannig að hún teljist aðlaðandi fyrir bankana, sem eru hlutafélög í eigu aðila sem gera arðsemiskröfu á eigið fé. Þá eru bankarnir þegar á fasteignalánamarkaði og eiga útlánasöfn með veði í fasteignum. Lagt er til að ríkið stofni félag sem kaupi fullnustueignir af Íls, sem mun að öðru óbreyttu bæta stöðu lausafjár sjóðsins um 30 ma.kr. Sjóðurinn er nú þegar með of mikið handbært fé, og telur hópurinn nauðsynlegt að það sé nýtt til að kaupa ný lánasöfn til að auka vaxtamun sjóðsins. Aftur verður hér forvitnilegt að sjá hvernig þetta verður útfært með tilliti til hvaða áhættu sjóðurinn yrði tilbúinn að taka. Ekki er fjallað frekar um hvernig eða hvort stjórnvöld munu leggja sjóðnum til aukið stofnfé.

Sjá umfjöllun í heild sinni: ovissan_um_ILS_20130419.pdf