Stýrivaxtaspá og verðlag hækkaði um 0,2% í apríl

Stýrivaxtaspá og verðlag hækkaði um 0,2% í apríl

Verðlag hækkaði um 0,2% apríl

Verðlag hækkaði um 0,2% í apríl en við höfðum spáð engri breytingu. Aðrir greiningaraðilar höfðu spáð 0,2% til 0,1% lækkun. Á síðustu tólf mánuðum hefur vísitala neysluverðs  (VNV) hækkað um 3,3% og lækkar því úr 3,9% frá því í mars. Það sem skýrir helst muninn á spá okkar og raunverulegri breytingu milli mánaða er húsnæðisliðurinn sem hækkaði VNV um 0,23% og gengisáhrifin sem reyndust vera -0,24%.

Styrking krónunnar frá því í janúar mun áfram lita mælingar VNV á næstu mánuðum að okkar mati. Við gerum þó ekki ráð fyrir mikilli styrkingu til viðbótar þar sem við höfum áður lýst þeirri skoðun okkar að vænlegast yrði ef Seðlabankinn myndi hefja regluleg gjaldeyriskaup á ný til að draga úr sveiflum krónunnar. Gefið að krónan haldist á því stigi sem hún er núna spáum við því að gengisáhrifin vegi áfram til lækkunar á VNV, og að um 3%-3,5% áhrif eigi eftir að koma fram í verðlagi á næstu 4-8 mánuðum. Bráðabirgðaspá okkar fyrir næstu mánuði sýnir að VNV verður óbreytt í maí, hækkar um 0,2% í júní og lækkar um 0,7% í júlí. Ef sú spá raungerist mun ársverðbólga mælast 3,1% í júlí nk.

Spáum óbreyttum stýrivöxtum

Við spáum óbreyttum vöxtum við næstu vaxtaákvörðun peningastefnunefndar. Það sem vegur þyngst í mati okkar er hversu háir raunvextir Seðlabankans eru orðnir, eða 2% í kjölfar birtingar VNV fyrir apríl. Miðað við bráðabirgðaspá okkar fyrir verðbólgu og óbreytta nafnvexti Seðlabankans munu vextirnir slaga í 2,2% í júlí næstkomandi en peningastefnunefnd hefur haldið því fram að jafnvægisraunvextir þurfi að vera 3% miðað við að slakinn í þjóðarbúskapnum sé hverfandi.

Sjá umfjöllun í heild sinni:  verdbolga_april_2013.pdf