Óbreyttir stýrivextir - skýr skilaboð um fyrirætlanir á gjaldeyrismarkaði

Óbreyttir stýrivextir - skýr skilaboð um fyrirætlanir á gjaldeyrismarkaði

Peningastefnunefnd ákvað á vaxtaákvörðunarfundi sínum í morgun að halda stýrivöxtum óbreyttum. Ákvörðunin sem slík kom ekki á óvart enda gerðu greiningaraðilar ráð fyrir óbreyttum vöxtum, hins vegar voru áhugaverð skilaboð sem birtust í yfirlýsingu peningastefnunefndar um fyrirætlanir Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði. Þótt umfjöllun um gjaldeyrisinngrip bankans í yfirlýsingu peningastefnunefndarinnar hafi verið örlítið óskýr, þá varpaði Seðlabankastjóri heilmiklu ljósi á fyrirætlun bankans á kynningarfundi um vaxtaákvörðunina í morgun.

Við teljum að Seðlabankinn sé að fara að koma inn á gjaldeyrismarkað af auknum krafti, bæði sem seljandi gjaldeyris líkt og verið hefur, og einnig sem kaupandi eftir hlé síðan um áramótin. Þannig virðist okkur sem hann ætli nú að setja aukna áherslu á að jafna sveiflur í gengi krónunnar, eins og reyndar fyrirheit hafa staðið til frá upphafi en ekki hefur tekist hingað til eins og við höfum áður bent á. Þessi yfirlýsing felur þá í sér aukin gjaldeyriskaup þegar aðstæður til þess skapast. Bankanum er sýnilega nokkuð umhugað um að markaðnum bregði ekki við inngrip á kauphliðinni og því er lögð áhersla á að bankinn muni ekki síður styðja við krónuna ef hún taki að veikjast.

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar er tiltekið að gengi krónunnar hafi verið nálægt því sem að óbreyttu megi ætla að nægi til þess að ná verðbólgumarkmiði á næstu misserum. Þá er einnig lögð áhersla á að peningastefnunefndin vænti þess að stefna bankans á gjaldeyrismarkaði muni stuðla að því að innlent verðlag aðlagist sterkari krónu fyrr en ella og verðbólguvæntingar lækki. Við eigum mjög erfitt með að skilja þessar tvær setningar, auk orða Seðlabankastjóra á fundi í morgun, öðruvísi en svo að bankinn telji krónuna vera nokkurnvegin á réttum stað við nafngengi um eða innan við EURISK 160.

Sjá umfjöllun í heild sinni: 150513 stýrivaxtaákvörðun.pdf