Fjárfestingavilji lífeyrissjóða í erlendri mynt innan gjaldeyrishafta

Fjárfestingavilji lífeyrissjóða í erlendri mynt innan gjaldeyrishafta

Árleg fjárfestingaþörf lífeyrissjóðanna er á bilinu 150-200 ma.kr. til næstu tíu ára. Vegna gjaldeyrishaftanna geta lífeyrissjóðirnir ekki ráðstafað fjármunum sínum utan landsteinanna og þurfa þeir því að finna fjármunum sínum að öllu leyti farveg í takmörkuðu framboði fjárfestingakosta hér innanlands. Mikilvægur þáttur í starfsemi lífeyrissjóða er að hafa kost á að dreifa áhættu m.a. yfir landsvæði. Á þeim tæpu fimm árum sem liðið hafa frá setningu gjaldeyrishafta hefur hlutfall erlendra eigna, o.þ.m.t. áhættudreifing sjóðanna, rýrnað úr um þriðjungi af heildareignum niður í rúman fimmtung af heildareignum lífeyrissjóðanna. Ef fram fer sem horfir þá má ætla að hlutdeild erlendra eigna af heildareignum muni minnka enn frekar á komandi árum.

Ef litið er til spár Seðlabanka Íslands um áætlaðan viðskiptajöfnuð til næstu ára og hann settur í samhengi við þær erlendu fjárfestingar sem spálíkanið gerir ráð fyrir er mjög erfitt að finna í gögnum og spám bankans svigrúm til þess að heimila lífeyrissjóðum að fjárfesta erlendis. Raunar kemur fram í sérriti Seðlabankans, Varúðarreglur eftir fjármagnshöft, að lífeyrissjóðirnir muni búa áfram við einhverskonar höft í það minnsta til að byrja með eftir að fjármagnshöftunum hefur verið aflétt. Ef fram fer sem horfir er því ljóst að sjóðirnir þurfa að finna fjármunum sínum að mestu eða öllu leyti farveg á innlendum mörkuðum á komandi árum. Uppsafnaður vilji sjóðanna til erlendra fjárfestinga samkvæmt spálíkaninu er hátt í 400 ma.kr. á næstu fimm árum og 700 ma.kr. til næstu tíu ára. Þrátt fyrir að takmörkun lífeyrissjóða til fjárfestinga erlendis er til þess fallin að draga úr líkum á gengislækkun krónunnar þá getur hún einnig reynst dýrkeypt fyrir íslenskt efnahagslíf vegna þess að sjóðirnir munu þurfa að finna árlegri fjárfestingaþörf farveg í takmörkuðu framboði fjárfestingakosta hér á landi. Það gæti flækt afnám gjaldeyrishafta, leitt til bólumyndunar á eignamörkuðum og að lokum til mikils söluþrýstings þegar kemur að því að höftunum verður aflétt.

 

Sjá umfjöllun í heild sinni: Fjárfestingavilji lífeyrissjóða.pdf