Verðlag lækkar lítillega í maí

Verðlag lækkar lítillega í maí

Vísitala neysluverðs lækkaði um 0,05% í maí frá fyrri mánuði og mælist ársverðbólgan nú 3,3%. Verðbólgutölur voru í takti við spár greiningaraðila sem lágu á bilinu -0,1% til 0%. Ekki er að sjá að mikill verðbólguþrýstingur sé til staðar, gengisáhrif vegna styrkingar krónunnar koma fram nú þriðja mánuðinn í röð, flugliðurinn lækkar verulega ásamt því sem matvörur lækka lítillega eftir að hafa hækkað samfleytt síðustu átta mánuði. Þá eru einskiptisáhrif jafnframt að koma fram í mánuðinum vegna breytinga á greiðsluþátttökukerfi til lyfjakaupa og koma þau áhrif fram í heilsuliðnum. Á móti þeim lækkunum sem mældust í mánuðinum er húsnæðisliðurinn að koma nokkuð sterkur inn til hækkunar í apríl og maí, og e.t.v. merki þess að fasteignamarkaðurinn sé að taka við sér á ný.

Gengisáhrifin ekki öll komin fram
Krónan hefur það sem af er ári styrkst um ríflega 5% gagnvart evru og höfum við séð áhrif vegna þessa í síðustu verðmælingum Hagstofunnar. Gróflega áætlað teljum við að nú þegar hafi 0,5% gengisáhrif komið fram (í mars, apríl og maí). Má því ætla að frekari áhrif eigi eftir að koma fram, af því auðvitað gefnu að krónan gefi ekki frekar eftir og væntingar samhliða.

Sjá umfjöllun í heild sinni: Verðlag lækkaði lítillega í maí 2013.pdf