Ferðaþjónustan: Atvinnugrein á unglingsaldri

Ferðaþjónustan: Atvinnugrein á unglingsaldri

Á meðan sjósókn hefur verið stunduð á Íslandi frá landnámi og álframleiðsla í hátt í hálfa öld má segja að ferðaþjónustan sé tiltölulega ung atvinnugrein í samanburði við þessar rótgrónu atvinnugreinar. Þótt áratugahefð sé að vísu fyrir margvíslegri grunnþjónustu við ferðamenn, t.d. hvað varðar gistingu og leiðsögu, hefur greinin tekið út mikinn vöxt og þroska á skömmum tíma og stendur nú fullkomlega jafnfætis hinum tveimur eldri. Nýsköpun í greininni hefur aukist á undanförnum árum; gistikostum fjölgað og flóra afþreyingarkosta stækkað í takti við mikla fjölgun ferðamanna, og stenst nú samanburð við margt af því besta sem gerist á heimsvísu. Útflutningstekjur ferðaþjónustunnar tóku fram úr álframleiðslu á síðasta ári, og horfur eru á að greinin taki að veita sjávarútvegi samkeppni sem aðalútflutningsatvinnuvegur þjóðarinnar, jafnvel strax á þessu ári.

Þótt bæði sjávarútvegur og álframleiðsla gegni veigamiklu hlutverki fyrir þjóðarbúið hefur ferðaþjónustan þannig svarað kallinu um „eitthvað annað“ – um að fleiri og fjölbreyttari stoðum verði skotið undir útflutning hagkerfisins. Þannig er greinin nú óðum að festa sig í sessi sem rótgróin atvinnugrein. Á meðan hún er enn í röskum vexti og vörumerkið „Ísland“ er enn ekki fullmótað væri þó langt seilst að kalla greinina fullvaxta. Við viljum frekar lýsa henni sem atvinnugrein á unglingsaldri!

En unglingsárin eru ekki alltaf dans á rósum. Þau einkennast af því að áhyggjuleysi æskunnar víkur fyrir þeirri ábyrgð sem fylgir því að vaxa úr grasi. Þess vegna höfum við lagt stóran hluta skýrslunnar undir þær áskoranir sem ferðaþjónustan stendur frammi fyrir eftir því sem ferðamönnum fjölgar og mikilvægi atvinnugreinarinnar eykst, en þær felast einkum í því að umgangast helstu auðlind ferðaþjónustunnar – náttúruna – með slíkum hætti að vöxtur í komum ferðamanna verði sjálfbær um ókomna tíð. Sem betur fer höfum við óverulegar áhyggjur af því að átroðningur og mannmergð séu beinlínis tekin að valda ferðaþjónustunni skaða enn sem komið er, allavega hvað meirihluta ferðamannasvæða landsins áhrærir. Ef vöxtur í komum ferðamanna verður hinsvegar jafnmyndarlegur og við spáum á komandi árum er ekki seinna vænna en að byrja að huga að sjálfbærni atvinnuvegarins.

Þá fjallar einn kafli skýrslunnar sérstaklega um tekjur og arðsemi í greininni. Vísbendingar eru um að framleiðni í greininni sé lítil, og hægt sé að gera betur í því að breyta komum ferðamanna í beinharða peninga. Við reynum að draga fram helstu álitaefnin í því hvernig hægt sé að auka vinnsluvirði greinarinnar, en kjarni þess er að leggja aukna áherslu á virði hvers ferðamanns, fremur en fjölda þeirra.

Takist ferðaþjónustunni að mæta þessum áskorunum og vinna úr þeim er ljóst að hún á sér bjarta framtíð sem einn af grunn-útflutningsatvinnuvegum landsins.

Sjá skýrsluna í heild: Ferðaþjónusta_Atvinnugrein á unglingsaldri.pdf.