Markaðspunktar: Verðbólgan flýgur af stað: 0,5% hækkun í júní - fluginu að kenna

Markaðspunktar: Verðbólgan flýgur af stað: 0,5% hækkun í júní - fluginu að kenna

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,53% milli mánaða í júní og mælist ársverðbólgan 3,3%. Greiningardeild hafði gert ráð fyrir 0,3% hækkun og því er niðurstaðan nokkuð yfir okkar spám en einnig annarra greiningaraðila, spár lágu á bilinu 0,3-0,4%. Helsta frávik frá okkar spá má rekja til flugliðarins en einnig reyndust áhrif húsnæðisliðar sterkari en við höfðum ráðgert. Greina má töluverð gengisáhrif í verðmælingunni en krónan hefur veikst á undanförnum vikum. Að því gefnu að krónan haldist óbreytt eða styrkist ekki eigum við líklega eftir að sjá frekari áhrif á næstu mánuðum vegna veikingarinnar að undanförnu.

Við spáum því að verðlag lækki í júlí um 0,6% en í næsta mánuði koma útsöluáhrif fram af fullum þunga. Næstu mánuði þar á eftir ganga hins vegar útsöluáhrif tilbaka og gerum við ráð fyrir 0,5% hækkun í ágúst og 0,7% hækkun í september. Gangi bráðabirgðaspá okkar eftir verður ársverðbólgan komin í ríflega 4% í september.

Seðlabankinn á söluhliðina á nýjan leik?
Í yfirlýsingu peningastefnunefndar 15.maí sl. var tiltekið að gengi krónunnar væri nálægt því sem að óbreyttu mætti ætla að dugði til að ná verðbólgumarkmiði á næstu misserum. Frá þeim tíma hefur krónan veikst um 1,7% gagnvart evru. Nú þegar ferðamannatímabilið er hafið og metfjöldi ferðamanna sækir landið heim þá er krónan að veikjast en ekki að styrkjast. Eflaust eru margar skýringar á þróuninni en eins og við höfum áður bent á þá teljum við þó að líklegasta skýringin sé sú að viðskiptabankarnir þrír (einkum þá Landsbankinn) séu að nýta sér það svigrúm sem þeir hafa í gjaldeyrisjöfnuði sínum þegar þeir sjá innstreymi koma til þeirra. Í maí runnu a.m.k. 4,6 ma.kr. til erlendra aðila í formi vaxtagreiðslna og hugsanlegt að eitthvert útflæði hafi verið vegna þessa á undanförnum vikum. Þróunin framan af sumri er því ekki eins og Seðlabankinn hafði vonað, en vonir stóðu til að samhliða sumarstyrkingu krónunnar þá myndi svigrúm skapast til að endurheimta þann gjaldeyri sem nýttur var framan af ári til að styðja við gengi krónunnar. Ef fram fer sem horfir og krónan heldur áfram að veikjast þá getum við ekki annað séð en að Seðlabankinn sé allt eins líklegur til að snúa sér á söluhliðina á nýjan leik (selja gjaldeyri til að styðja við gengi krónunnar).

Sjá umfjöllun í heild sinni: verðbólgan í júní 2013.pdf