K-orðs vísitalan uppfærð: Áfram bati þrátt fyrir krepputal í kosningum

K-orðs vísitalan uppfærð: Áfram bati þrátt fyrir krepputal í kosningum

Síðasta haust birti greiningardeild K-orðs vísitöluna svokölluðu í fyrsta sinn (sjá Fjölmiðlaumfjöllun gefur góða samtímamynd af hagkerfinu), en hún byggir á sambærilegri vísitölu sem breska vikublaðið The Economist fann upp á; R-word index. Vísitalan er mjög einföld að gerð og byggir á því að telja hversu margar fréttir eða greinar innihalda orðið „kreppa“ (e. recession) á gefnu tímabili. The Economist taldi fréttirnar sem innihéldu orðið í dagblöðunum Washington Post og New York Times á hverjum fjórðungi, en vísitala greiningardeildar inniheldur fréttir allra íslenskra prent- og ljósvakamiðla á mánaðargrundvelli eins og þær birtast í ítarleit Fjölmiðlavaktarinnar.

Við höfum  nú uppfært vísitöluna, en nýjustu mælingarnar benda til þess að krepputal sé enn á hægu en stöðugu undanhaldi. Leitnin í tíðni kreppufrétta hefur legið niður á við síðan hún náði hámarki í hrunmánuðinum október 2008. Nú er svo komið að í júní síðastliðnum birtust „aðeins“ 59 fréttir þar sem minnst var á kreppu, eða innan við tvær á dag. Kreppufréttir hafa raunar ekki verið jafnfáar síðan áhyggjulausa árinu 2007 lauk, en í desember það ár birtust 55 kreppufréttir – og fór fjölgandi eftir það.

Sjá umfjöllun í heild sinni: K-orð.pdf