0,3% verðhjöðnun í júlí – bólga framundan

0,3% verðhjöðnun í júlí – bólga framundan

Verðlag lækkaði um 0,3% í júlí og fer því tólf mánaða verðbólga úr 3,3% í 3,8%. Við höfðum spáð 0,4% verðhjöðnun í júlí en aðrir helstu greiningaraðilar höfðu spáð hjöðnun á bilinu 0,2% til 0,3%. Hvað spá okkar varðar munar mest um hversu mikið húsnæðisliðurinn hækkaði en hann hafði 0,2% áhrif til hækkunar á vísitölu neysluverðs (VNV) en við höfðum spáð 0,1% áhrifum til hækkunar. Þá tóku almennar gjaldskrárhækkanir fyrr gildi en við höfðum áætlað.  Útsöluáhrifin voru í samræmi við spá okkar eða rúmlega 0,5% til lækkunar.

Bráðabirgðaspá okkar frá því um miðjan júlí fyrir komandi þrjá mánuði er hér um bil óbreytt. Þrátt fyrir að eldsneytisverð hafi farið hækkandi þá hefur gengi krónunnar styrkst um 1% gagnvart evru frá því að spáin var gerð. Áfram gerum við ráð fyrir að húsnæðisliðurinn hækki. Líkt og síðustu ár munu útsöluáhrif júlímánaðar ganga að fullu til baka á næstu tveimur mánuðum og gerum við ráð fyrir að söluaðilar munu horfa á tæplega 4% veikingu krónunnar síðan í maí sem rökstuðning fyrir verðhækkunum. Uppfærð bráðabirgðaspá okkar fyrir næstu mánuði sýnir að VNV hækkar um 0,45% í ágúst, hækkar um 0,65% í september og hækkar um 0,5% í október. Ef sú spá raungerist mun ársverðbólga mælast 4,6% í október og verður tólf mánaða verðbólga á þriðja ársfjórðungi að meðaltali 4,2% sem er yfir 3,7% spá Seðlabankans fyrir fjórðunginn frá því í maí. 

Sjá umfjöllun í heild sinni: verdbolga_july_2013.pdf