Útlendingar að þrýsta niður verðtryggðu kröfunni?

Útlendingar að þrýsta niður verðtryggðu kröfunni?

Síðan í maí hafa erlendir aðilar verið þeir einu sem kalla má virkir á skuldabréfamarkaði og sést það einna best á þróun verðtryggða ríkisbréfaflokksins RIKS 21 0414 þar sem þeir hafa nánast verið einir á kauphliðinni. Á sama tíma hafa þeir bókstaflega átt kauphliðina í tilboðabókum stuttra óverðtryggðra ríkisbréfaflokka en statt og stöðugt losað stöður sínar í ríkisvíxlum. Ástæða umsvifa þessara aðilar er ríflega 64 ma.kr. greiðsla af RIKB 13 0517 sem féll þeim í skaut í maí síðastliðnum. Svo virðist vera að þeir hafi haldið upphæðinni að megninu til á Íslandi.

Við teljum að erlendir aðilar séu komnir til að vera í RIKS 21 0414 og „taugaveiklunin“ í mars, þar sem þeir seldu um 2,6 ma.kr. í flokknum eftir að hafa aukið hana um 3 ma.kr. í febrúar, verði ekki lýsandi fyrir hegðun þeirra í nánustu framtíð. Helstu rökin fyrir þessari skoðun okkar eru þau að staða erlendra aðila í flokknum samsvarar einungis 2% af heildarkrónueign þeirra og að staða í verðtryggðu til langs tíma er fýsileg með hliðsjón af áhyggjum þeirra af því að stjórnvöld þrengi enn frekar að tækifærum þeirra til endurfjárfestingar vegna afborgana. Þá spáum við aukinni verðbólgu á næstu mánuðum (sjá Markaðspunktar: 0,3% verðhjöðnun í júlí – bólga framundan) eða að árstaktur hennar verði um 4,6% í október, samanborið við 3,8% í júlí.

Við teljum að mögulegt framboð skuldabréfa á frummarkaði (22 ma.kr. + 13 ma.kr. í ríkisvíxlum) muni ekki anna raunverulegu innflæði (42 ma.kr.) á næstkomandi tveimur mánuðum. Að auki gerum við ráð fyrir að erlendir aðilar munu áfram sýna því áhuga að kaupa RIKB15 0408 í þeim þremur útboðum sem Lánamál ríkisins munu halda á næstu tveimur mánuðum sem þýðir að framboð ríkisbréfa á frummarkaði til annarra fjárfesta verður minna. Þar af leiðir að fjárfestar þurfa að koma innflæðinu í innlán eða í bréf á eftirmarkaði miðað við óbreytt ástand. Sérstaklega merkjum við skort á verðtryggðu framboði (6 ma.kr.) samanborið við verðtryggt innflæði (19 ma.kr.) og því tækifæri fyrir til dæmis fyrirtækjaútgáfur.

 

Sjá umfjöllun í heild: FI_Flaedi_20130731.pdf