Óbreyttir stýrivextir - óljós skilaboð um gerð kjarasamninga

Óbreyttir stýrivextir - óljós skilaboð um gerð kjarasamninga

Peningastefnunefnd ákvað á vaxtaákvörðunarfundi sínum í morgun að halda stýrivöxtum óbreyttum, sjötta fundinn í röð. Niðurstaðan kom ekki á óvart enda höfðu greiningar- og markaðsaðilar gert ráð fyrir óbreyttum vöxtum. Það sem kom okkur á óvart var að tónninn hefur ekkert breyst og var mildari en við bjuggumst við, þrátt fyrir að verðbólguhorfur hafa verið að versna og verðbólguvæntingar séu enn háar eða farið hækkandi.

Bankinn hyggst áfram beita inngripum á gjaldeyrismarkaði til að stuðla að stöðugleika krónunnar. Seðlabankinn hefur áhyggjur af raunhagkerfinu og peningastefnunefnd er því ekki tilbúin að beita vaxtatækinu eins og staðan er í dag. Við óttumst hins vegar að ef samið verður um óhóflegar launahækkanir í haust og áform ríkisstjórnarinnar í opinberum fjármálum verði ekki þeim að skapi að þá muni stýrivextir hækka á nýjan leik.

Ef við jafnframt rýnum í spáforsendur Seðlabankans um launakostnað á framleidda einingu er bankinn sjáfur að gera ráð fyrir 4,6% hækkun á þessu ári og 4% hækkun á árunum 2014-2015 (sjá mynd í skjali). Slíkar hækkanir eru alls ekki í samræmi við verðbólgumarkmiðið enda gildir almennt sú regla að til að viðhalda verðbólgu í 2,5% þá má launakostnaður á framleidda einingu ekki hækka umfram 2,5% á hverju ári. Spurning er því þessi: Er Seðlabankinn tilbúinn að sætta sig við slíkar hækkanir án þess að grípa til vaxtahækkana á nýjan leik?

 

Sjá umfjöllun í heild sinni: Vaxtaakvordun20130821F.pdf