Spáum 0,7% verðbólgu í september og 4,6% á árinu

Spáum 0,7% verðbólgu í september og 4,6% á árinu

Við spáum 0,7% hækkun vísitölu neysluverðs (VNV) í september. Breytinguna má rekja til hækkunar á fatnaði og skóm, þar sem sumarútsölum er lokið, flugfargjöldum og húsnæðis. Á móti kemur að dagvörur lækka lítillega í verði og verð á eldsneyti stendur nánast í stað.

Ef spá okkar fyrir VNV í september raungerist verður tólf mánaða verðbólga áfram 4,3% og verðbólga á þriðja ársfjórðungi 4,2% en Seðlabankinn spáir 4% verðbólgu á fjórðungnum. Framundan er áframhaldandi verðbólga sem við teljum að stafi meðal annars af hækkandi húsnæðisverði og húsaleigu. Þá eru kjarasamningar lausir í lok nóvember og eru samningsviðræður í það að hefjast þar sem hagsmunaaðilar áttu fund með forsætisráðherra í ráðherrabústaðnum síðastliðinn miðvikudag. Væntingar heimilanna um lofaðar aðgerðir í skuldamálum þeirra munu áfram styðja við einkaneyslu og húsnæðismarkaðinn.

Bráðabirgðaspá okkar fyrir næstu þrjá mánuði hljómar upp á 0,5% hækkun í október, 0,2% hækkun í nóvember og 0,2% hækkun í desember. Ef spáin gengur eftir verður tólf mánaða verðbólga í lok ársins 4,6%.

Við lokun markaða í gær var verðbólguálagið, reiknað út frá RIKS 21 0414, RIKB 22 1026 og RIKB 25 0612, komið yfir 5% í fyrsta skipti síðan í nóvember í fyrra. Þrátt fyrir að umtalsverð verðbólga sé í kortunum að okkar mati teljum við að verðbólguálagið muni lækka eitthvað á næstu vikum enda varð mikil hækkun á álaginu í gær frá deginum áður, eða um 14 pkt.

Sjá umfjöllun í heild sinni: Verdbspa_september2013.pdf