Orkufyrirtækin hægt og bítandi á réttri leið

Orkufyrirtækin hægt og bítandi á réttri leið

Stærstu orkufyrirtæki landsins eiga það sammerkt að vera útgefendur skráðra skuldabréfa í Kauphöllinni. Fyrirtækin sem um ræðir eru Landsvirkjun, Orkuveita Reykjavíkur, HS Orka, HS Veitur, RARIK og Landsnet . Þau hafa nú öll birt uppgjör fyrir fyrri helming þessa árs. Fyrirtækin eru ekki að fullu samanburðarhæf þar sem þau starfa ýmist í sölu og framleiðslu eða í dreifingu á orku, en með breytingum á raforkulögum árið 2003 var fyrirtækjum bannað að starfa bæði að framleiðslu og dreifingu á orku, til að stuðla að aukinni samkeppni.

Afkoma stærstu orkufyrirtækja landsins er að miklu leyti háð ytra umhverfi sem fyrirtækin búa við hverju sinni. Vaxtastig, gengisþróun og álverð eru allt ytri þættir sem hafa áhrif á rekstur þeirra. Verð á áli hefur t.a.m. lækkað mikið á undanförnum misserum sem hefur áhrif á afkomu fyrirtækjanna, þó að þau geti að hluta til varið sig fyrir sveiflum í verðþróun með afleiðusamningum. Landsvirkjun hefur markvisst unnið að því að minnka tekjutengingu við álverð og hefur hún minnkað úr um 70% af tekjum niður í um helming tekna félagsins. Þess í stað eru tekjur félagsins nú í meiri mæli bundnar vísitölu neysluverðs í Bandaríkjunum. Tekjur Orkuveitu Reykjavíkur og HS Orku eru að um fimmtungi og þriðjungi bundin álverði. Þó að það geti komið orkufyrirtækjunum til góðs að njóta ágóðans þegar álverð er hátt þá getur það komið í bakið á þeim þegar álverð lækkar eins og gerst hefur á undanförnum mánuðum og misserum. Fyrirtækin sem sjá um dreifingu orkunnar, eins og t.d. Landsnet eru minna háð ytri þáttum eins og álverði.

Sjá umfjöllun í heild sinni: Orkufyrirtækin.pdf