0,3% verðbólga í september – ársverðbólga 3,9%

0,3% verðbólga í september – ársverðbólga 3,9%

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,3% í september og því er tólf mánaða verðbólga 3,9% og lækkar frá því í ágúst þegar hún var 4,3%. Þetta er talsvert minni bólga en við höfðum spáð, en við spáðum 0,7% verðbólgu í mánuðinum en aðrir greiningaraðilar spáðu hækkun á bilinu 0,4-0,5%. Það sem drífur hækkunina áfram er hækkun í verði á fötum og skóm vegna ústöluloka, og tómstundir. Þeir þættir sem höfðu mest áhrif til lækkunar voru heilbrigðisþjónusta, eldsneyti og matur og drykkur.

Teljum við að framundan sé tímabil þar sem verðbólga verður yfir markmiði Seðlabankans og í desember verði tólf mánaða verðbólga komin í 4,1%. Ástæður fyrir þeirri skoðun okkar eru meðal annars þær að við teljum í bígerð verðhækkanir fyrirtækja sem vilja hafa borð fyrir báru vegna fyrirhugaðra launahækkanna þar sem kjarasamningar eru lausir í lok nóvember, krónan hefur veikst um 3,5% gagnvart evru frá því í byrjun september, mjólkurvörur hækka um 3% í næsta mánuði, og að þrátt fyrir lækkun í september verður hækkun á íbúðaverði og leiguverði sem verður drifin áfram af væntingum heimilanna um fyrirhugaðar skuldaleiðréttingar ríkisstjórnarinnar - sem verða líklega farnar að skýrast í nóvember.

Við lokun markaða í gær var verðbólguálagið komið í 4,94% eftir að hafa farið yfir 5% í fyrsta skipti síðan í nóvember í fyrra. Að okkar mati er framundan tímabil þar sem tólf mánaða verðbólga verður yfir 3,9%. Verðbólguálagið gæti því lækkað lítillega á næstu vikum með hliðsjón af því að eldsneytisverð er að fara lækkandi. Hins vegar getur verið að markaðsaðilar séu farnir að læra að vanmeta ekki verðbólgu til lengri tíma litið, sérstaklega í ljósi óvissunnar er tengist fyrirhuguðum kjaraviðræðum og skuldaleiðréttingum, og því haldist álagið áfram nærri 5%.

 

Sjá umfjöllun í heild sinni: Verdbolga_september2013.pdf