Engin verðbólga í október - markmið loksins í augsýn

Engin verðbólga í október - markmið loksins í augsýn

Vísitala neysluverðs hélst óbreytt í október frá fyrri mánuði og mælist ársverðbólgan nú 3,6% samanborið við 3,9% verðbólgu í september. Verðbólgumælingin kemur verulega á óvart en við höfðum gert ráð fyrir 0,5% verðbólgu og spár greiningaraðila lágu á bilinu 0,2-0,5%. Helstu frávik frá okkar spá má rekja til flugliðarins (eins og reyndar svo oft áður) en flugliðurinn lækkar fjórða mánuðinn í röð. Þá mælist lítilsháttar verðlækkun á fatnaði og skóm sem við höfðum ekki séð fyrir. Við greinum þó nokkur gengisáhrif í verðmælingu Hagstofunnar þá til lækkunar verðlags, en þrátt fyrir að krónan hafi verið að veikjast á undanförnum mánuðum þá mælist enn uppsöfnuð styrking frá áramótum í kringum 4%, ef horft er á meðalgengi í hverjum mánuði.

Verbólgan hefur hjaðnað á undanförnum mánuðum og við sjáum ekki betur en svo verði áfram á komandi mánuðum gangi bráðabirgðaspá okkar eftir. Við teljum þó óvissuna vera fremur til hækkunar. Í okkar spá er gert ráð fyrir óbreyttu eldsneytisverði en frekari gengisveiking krónunnar eykur líkur á því að eldsneytisverð muni fremur hafa áhrif til hækkunar. Þá gerum við ráð fyrir gengisáhrifum vegna veikingar krónunnar en hugsanlegt er að áhrifin geti orðið sterkari en við gerum hér ráð fyrir. Þá eru engin áhrif vegna kjarasamninga en verði samið fyrir áramót og ef við gefum okkur að samningarnir verði nokkuð brattir þá teljum við afar líklegt að við sjáum áhrifin fljótlega í verðbólgumælingum Hagstofunnar. Gangi bráðabirgðaspá okkar eftir þá gerum við ráð fyrir að ársverðbólgan verði 3,1% í janúar.

Sjá umfjöllun í heild sinni: Verðbólga_okt.pdf