Er aukin skattheimta ákjósanleg?

Er aukin skattheimta ákjósanleg?

Samkvæmt stöðutölum Hagstofu Íslands námu peningalegar skuldir ríkissjóðs 107% af vergri landsframleiðslu (VLF) í ágúst síðastliðnum, að lífeyrisskuldbindingum meðtöldum. Lækkun ríkisskulda er nokkuð vandasamt verk en til að það takist þurfa annað hvort tekjur ríkissjóðs að aukast eða útgjöld að dragast saman. Tekjur ríkisins eru að stærstum hluta fengnar með innheimtu skatta á tekjur, vörur og þjónustu en árið 2012 námu skatttekjur alls 73% af heildartekjum ríkissjóðs. Heildartekjur ríkissjóðs hafa vaxið frá því þær náðu lágmarki sínu árið 2010, eða um 8,7% á raunvirði. Tekjuaukningin er nokkuð meiri en áætlanir áranna 2009-2012 gerðu ráð fyrir en á móti kemur að ríkisútgjöld hafa farið fram úr áætlunum.

Skuldir ríkissjóðs eru ennþá umtalsverðar og því eðlilegt að velta upp þeirri spurningu hvort hægt sé að ganga lengra til þess að grynnka á þeim, t.d. með aukinni skattheimtu. Séu skatttekjur Íslands bornar saman við meðalskatttekjur áþekkra ríkja kemur í ljós að tækifæri íslenska ríkisins til að auka skatttekjur sínar eru af skornum skammti. Með öðrum orðum, raunverulegar skatttekjur eru meira en nemur væntum skatttekjum. Er þetta í samræmi við það sem gengur og gerist í Evrópu en flest evrópsk ríki búa við þröngan kost þegar kemur að skattahækkunum. Aftur á móti ættu lönd eins og Japan, Sviss, Kórea og Bandaríkin að hafa töluvert svigrúm til að auka skatttekjur sínar.

Sjá umfjöllun í heild sinni: Skattar.pdf