Verðbólga meiri en búist var við: 0,36% hækkun VNV í nóvember

Verðbólga meiri en búist var við: 0,36% hækkun VNV í nóvember

Vísitala neysluverðs hækkar um 0,36% í nóvember frá fyrri mánuði. Það er umfram spár greiningaraðila, en þeir höfðu spáð á bilinu 0,2-0,3% hækkun. Verðbólga hefur því aukist úr 3,6% í 3,7%. Heilt yfir hækkuðu svo til allir liðir vísitölunnar örlítið meira en við bjuggumst við, ef frá er talið eldsneyti sem verkaði til lækkunar. Helstu frávik frá okkar spá eru vegna húsnæðisliðarins, en framlag hans til hækkunar VNV nam 0,19%, samanborið við 0,05% í okkar spá.

Við gerum ráð fyrir að leitni í verðbólgunni verði áfram niður á við, þó með nokkrum sveiflum. Lægst fer hún í um 3,2% í febrúar og hækkar svo í 3,6% í mars. Við gerum ráð fyrir að húsnæðisliðurinn hafi 0,05% áhrif til hækkunar mánaðarlega horft fram á veginn. -0,6% útsöluáhrif vegast á við +0,4% áhrif vegna gjaldskrárhækkana í janúar– við gerum ráð fyrir að VNV verði þá óbreytt milli mánaða að öllu töldu. Auk þess gerum við ráð fyrir lítilsháttar áhrifum vegna kjarasamninga á næstu mánuðum ef frá er talinn febrúar, en við áætlum að kjarasamningsbundnar hækkanir komi fram af meiri þunga þá en í öðrum mánuðum (enda hækkuðu samningsbundin laun í takti við kjarasamninga þann 1. febrúar bæði 2012 og 2013).

Sjá umfjöllun í heild sinni: VerðbólgaNóvember.pdf