Kröftugur vöxtur á 3F 2013

Kröftugur vöxtur á 3F 2013

Hagvöxtur á 3F 2013 mældist 4,9% miðað við sama tíma í fyrra og er niðurstaðan umfram væntingar okkar. Ekki hefur mælst meiri hagvöxtur á einum ársfjórðungi frá hruni en einnig má benda á að annar og þriðji ársfjórðungur þessa árs mynda bestu samliggjandi fjórðunga frá því fyrir kreppu. Var hagvöxturinn á þriðja fjórðungi einkum drifinn áfram af utanríkisverslun þar sem útflutningur jókst um 8,3% (framlag vöruútflutnings og þjónustuútflutnings var nokkuð svipað) en innflutningur aðeins um 1,6%. Þá var einkaneyslan sterk á fjórðungnum, en hún jókst um 2,4% frá fyrra ári.

Þrátt fyrir að fjárfesting hafi dregist saman á fyrstu 9 mánuðum ársins, þá skýrist það einkum af miklum innflutningi skipa og flugvéla á fyrri helmingi ársins í fyrra – sé litið fram hjá fjárfestingu í skipum og flugvélum jókst fjárfesting um 5,3% á fyrstu níu mánuðum ársins. Þar af jókst fjárfesting atvinnuvega um 4,6%, íbúðafjárfesting um 5,2% og fjárfesting hins opinbera um 8,5%. Þrátt fyrir að hið opinbera sé þannig að draga vagninn virðist sem undirliggjandi fjárfestingarvilji sé til staðar í hagkerfinu – þótt hann mætti tvímælalaust vera öflugri.

Sjá umfjöllun í heild sinni: Hagvöxtur3F.pdf