Lánshæfishorfur ríkissjóðs stöðugar og áhættuálag lækkar

Lánshæfishorfur ríkissjóðs stöðugar og áhættuálag lækkar

Með hækkandi sól hafa borist jákvæðar fréttir af lánshæfismati ríkissjóðs en sl. föstudag staðfesti Fitch Ratings lánshæfiseinkunnirnar BBB og segir horfurnar stöðugar. Jafnframt breytti Standard & Poor‘s (S&P) nýlega horfum úr neikvæðum í stöðugar og staðfesti lánshæfiseinkunnirnar BBB-/A-3. Í skýrslu S&P eru breytingarnar rökstuddar með því að dregið hefur úr áhættu í ríkisfjármálum en þar er áætlað að heildarkostnaður ríkissjóðs vegna nýkynntra skuldaleiðréttingaraðgerða verði um 6% af vergri landsframleiðslu (VLF) á næstu fjórum árum. Bætt lánshæfismat eru jákvæð tíðindi fyrir ríkissjóð og eru þá öll matsfyrirtækin með stöðugar horfur á langtímaskuldbindingar ríkissjóðs. Á myndinni hér að neðan má sjá þróun á lánshæfismati ríkissjóðs fyrir langtímaskuldbindingar í erlendri mynt síðustu fjögur árin, en það er mikilvæg vísbending um aðgengi ríkissjóðs og jafnframt íslenskra fyrirtækja að erlendum lánsfjármörkuðum.