Spáum óbreyttum stýrivöxtum áfram

Spáum óbreyttum stýrivöxtum áfram

Við teljum nær öruggt að Seðlabankinn haldi vöxtum óbreyttum á vaxtaákvörðunarfundi sínum 19. mars, enda væri annað sögulegur viðsnúningur í afstöðu peningastefnunefndar á milli funda. Í síðustu fundargerð nefndarinnar segir:

Nefndarmenn töldu að þrátt fyrir að taumhald peningastefnunnar myndi herðast án frekari vaxtabreytinga að því marki sem verðbólga hjaðnaði frekar þyrftu nafnvextir Seðlabankans þó að óbreyttu að hækka samkvæmt verðbólguspá hans þegar nær dregur því að slaki snúist í spennu.

Almennt gefa skilaboð á borð við þessi nokkuð góða vísbendingu um fyrirætlanir peningastefnunefndar til skemmri tíma, enda leiðsögn hennar orðin sífellt skýrari. Það er okkar tilfinning að nefndin hafi ekki ráðist í breytingar á vaxtastefnunni á undanförnum árum nema með atrennu. Það gilti til dæmis um vaxtahækkunarferlið sem stóð yfir frá 2011 til 2012. Nefndin gaf skýrt til kynna að slíkt ferli væri að fara að hefjast þegar hún tiltók að nauðsynlegt gæti reynst „að auka aðhald peningastefnunnar á næstunni“ á fundi sínum 15. júní 2011 – og hélt svo í höndina á markaðnum með svipaðri leiðsögn í fundargerðum sínum í kjölfarið.

Sjá nánar: 120314_Stýrivextir.pdf