Birtir til í ríkisfjármálum á fyrsta ársfjórðungi

Birtir til í ríkisfjármálum á fyrsta ársfjórðungi

Greiðsluuppgjör ríkissjóðs á fyrsta ársfjórðungi liggur nú fyrir og gefur það mynd af afkomu ríkissjóðs á grundvelli innheimtra tekna og greiddra gjalda, eða á greiðslugrunni. Að þessu sinni berast jákvæð tíðindi frá Arnarhvoli sérstaklega hvað varðar tekjur ríkissjóðs það sem af er ári. Þyngst vegur sú staðreynd að arðgreiðslur eru verulega umfram forsendur fjárlaga og má rekja það til tæplega 20 ma.kr. arðs frá Landsbanka Íslands hf. sem greiddur var út undir lok fjórðungsins, en frávikið frá fjárlögum nemur um 13,3 ma.kr. Arðgreiðslurnar hafa legið fyrir um nokkurn tíma og má flokka sem óreglulegar tekjur og er því ánægjulegt að sjá að skatttekjur og tryggingagjöld fara einnig hækkandi en þau aukast um 10% milli ára og er það 6,5% yfir áætlun, sem eru umskipti frá því í fyrra. Ef fram heldur sem horfir geta skapast forsendur fyrir að hækka tekjuáætlun ríkissjóðs fyrir yfirstandandi ár og eykur það líkur á myndarlegum afgangi í ríkisfjármálum á þessu ári . Þó verður að hafa í huga ýmsar breytingar útgjaldamegin sem hafa komið fram og getur því verið gagnlegt að taka saman breytingar á forsendum fjárlaga það sem af er ári og skoða hvert stefnir þegar allt er lagt saman.

Sjá nánar 050514_Ríkisfjármál.pdf