Verðlag hækkaði um 0,07% í maí

Verðlag hækkaði um 0,07% í maí

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,07% í maí, sem er í takt við okkar spá en spár greiningaraðila lágu á bilinu 0,1-0,2% til hækkunar. Hækkunin í ár er umfram mælingu maí mánaðar í fyrra en þá lækkaði VNV um 0,05%. Tólf mánaða verðbólga hækkar því milli mánuða og mælist nú 2,4% samanborið við 2,3% í apríl. Húsnæðisliðurinn vegur þyngst til hækkunar í maí, og hafði 0,13% áhrif til hækkunar á VNV en einnig koma til hækkanir á mat og drykkjarvörum umfram okkar spá. Helsta frávikið er þó lækkun flugfargjalda um 8,1% og hafði það 0,15% áhrif til lækkunar á VNV sem er nokkuð umfram spár greiningaraðila en aðrir liðir standa í stað.

Uppfærð bráðabirgðaspá okkar fyrir næstu mánuði felur í sér að VNV hækki um 0,3% í júní, lækki um 0,3% í sumarútsölum í júlí og hækki síðan aftur um 0,3% í ágúst þegar sumarútsölur ganga til baka. Ef sú spá raungerist mun ársverðbólga mælast 2,1% í ágúst nk.

Sjá nánari umfjöllun: Verðbólga_Maí_Mæling.pdf