Verðlag hækkaði um 0,36% í júní

Verðlag hækkaði um 0,36% í júní

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,36% í júní en spár greiningaraðila lágu á bilinu 0,2-0,4% og gerðum við ráð fyrir 0,3% hækkun. Ársverðbólgan mælist 2,2% og er það fimmti mánuðurinn í röð sem hún mælist innan verðbólgumarkmiðs Seðlabankans. Ef horft er til verðbólgu án húsnæðis nemur hún 1,0% og endurspeglar það hve þungt húsnæðis- og leiguverð vegur um þessar mundir. Líkur eru á staðan breytist lítið á næstunni og gerum við ráð fyrir að ársverðbólga mælist 2,1% til 2,2% næstu þrjá mánuði. Athyglisvert er að samkvæmt mælingum Hagstofunnar mælist verðbólgan að meðaltali 2,3% á öðrum ársfjórðungi en í síðustu Peningamálum gerði Seðlabankinn ráð fyrir 2,4%. Samkvæmt okkar spá næstu þrjá mánuði mun verðbólgan á þriðja ársfjórðungi nema 2,2% en í Peningamálum var spáð 2,5% verðbólgu á sama ársfjórðungi. Ef spá okkar gengur eftir eru verðbólguhorfur því nokkuð betri um þessar mundir en Seðlabankinn gerði ráð fyrir í síðustu Peningamálum. Uppfærð bráðabirgðaspá okkar fyrir næstu mánuði felur í sér að VNV lækki um 0,3% í sumarútsölum í júlí, hækki um 0,2% í ágúst og 0,5% í september þegar sumarútsölur ganga til baka. Ef sú spá raungerist mun ársverðbólga mælast 2,2% í september nk.

Sjá nánar 2706414_Verðbólga_Júní_Mæling.pdf