Spáum 0,3% lækkun verðlags í júlí

Spáum 0,3% lækkun verðlags í júlí

Greiningardeild spáir því að vísitala neysluverðs (VNV) lækki um 0,3% í júlí frá fyrri mánuði. Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan standa í stað milli mánaða og mælast 2,2%. Júlí er útsölumánuður og því munu verðmælingar litast af þeim áhrifum en við gerum þó ráð fyrir að áhrifin gangi að fullu leyti til baka í ágúst og september. Húsnæðisverð hefur hækkað að undanförnu og áætlum við að sú þróun haldi áfram í júlí mánuði sem vigtar að einhverju leyti á móti verðlækkunum á útsöluvörum. Flugliðurinn er stærsti óvissuþátturinn í spá okkar eins og svo oft áður en við gerum ráð fyrir að flugfargjöld lækki og hafi um 0,1% áhrif til lækkunar á VNV. Aðrir liðir hafa minni áhrif á verðlag í mánuðinum en helst má nefna að matarkarfan og hótel og veitingastaðir hafa væg áhrif til hækkunar á VNV á meðan aðrir liðir s.s. tómstundir og menning hafa áhrif til lækkunar líkt og sjá má á myndinni hér að neðan.

Sjá umfjöllun í heild sinni: Verðbólga_Júlí_Spá.pdf