Hugsanleg áhrif bankaskatts á krónueignir búa gömlu bankanna

Hugsanleg áhrif bankaskatts á krónueignir búa gömlu bankanna

Einn helsti vandinn við að ljúka uppgjöri slitabúa gömlu bankanna er hve mikið af eignum þeirra er fært til bókar í krónum. Þar sem meirihluti kröfuhafa bankanna, eða um 94%, eru útlendingar er litið svo á að þeir myndu vilja skipta þessum krónum í erlendan gjaldeyri um leið og þær yrðu greiddar út. Útflæði af þeirri stærðargráðu í gegnum gjaldeyrismarkað gæti valdið gengisfalli ef það ætti sér stað mjög hratt.

Þótt auðvitað standi vonir til að hægt sé að ljúka nauðsamningum sem fyrst, þá getur engu að síður reynst fróðleg æfing að kanna hvað verður um þessar krónueignir ef töf verður á. Með tilkomu bankaskattsins, sem nemur 0,376% krafna búanna og lagður er á í íslenskum krónum, gæti nefnilega gengið á laust fé búanna í krónum. Skatturinn er meiriháttar útgjaldaliður til viðbótar innlendum rekstrarkostnaði búanna – eða samtals tæplega 28 ma. árlega samkvæmt áætlun Greiningardeildar. Þegar á heildina er litið gæti bankaskatturinn því þurrkað upp þónokkurn hluta krónueigna búanna á næstu fjórum árum, komist engin hreyfing á slit búanna fram að þeim tíma.

Sjá nánari umfjöllun: Bankaskattur.pdf