Óbreyttir stýrivextir út árið?

Óbreyttir stýrivextir út árið?

Greiningardeild Arion banka telur víst að peningastefnunefnd kjósi að halda vöxtum sínum óbreyttum. Þar kemur einkum til tvennt. Í fyrsta lagi er það okkar upplifun að peningastefnunefnd hafi tilhneigingu til þess að herða tóninn í yfirlýsingum sínum áður en stýrivöxtum er breytt og veita þannig leiðsögn um framhaldið. Þegar yfirlýsing og fundargerð síðasta fundar nefndarinnar eru samlesnar virðast slík „viðvörunarskot“ hvergi að finna. Í öðru lagi hefur einfaldlega lítið dregið til tíðinda í íslensku efnahagslífi frá síðasta fundi nefndarinnar og því lítil ástæða til að gera breytingar á vaxtastefnunni eða breyta mati nefndarinnar á horfum framundan.

Ef ekkert í Peningamálum kallar á hert vaxtaaðhald, þá er líklegt að vöxtum verði einnig haldið óbreyttum á næsta fundi nefndarinnar í október. Að októberfundinum loknum er hinsvegar orðið nokkuð seint að ætla að gera frekari breytingar á vaxtastefnunni fyrir áramót, en það væri undarlegt útspil að hækka vexti rétt áður en aðilar vinnumarkaðarins setjast að kjarasamningum og fjárlög verða afgreidd.

Sjá nánari umfjöllun: Stýrivaxtaspá.pdf