Fasteignir í Reykjavík á viðráðanlegu verði

Fasteignir í Reykjavík á viðráðanlegu verði

Með síðustu fasteignabólu ennþá sjáanlega í baksýnisspeglinum kemur ekki á óvart að margir séu með varann á gagnvart nýrri bólumyndun. Sem dæmi má nefna að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) fylgist náið með þróun húsnæðisverðs í aðildarríkjum sínum og gaf nú síðast í júní út viðvörun þess efnis að hrun á fasteignamörkuðum víðs vegar gæti verið í farvatninu ef ekki verði gripið í taumana. Í því samhengi nefnir sjóðurinn meðal annars Kanada, Noreg, Svíþjóð og Bretland. Ekki þótti brýnt að senda Íslandi, Spáni, Írlandi né Bandaríkjunum slík varnaðarorð en þau ríki eru vafalaust þekktustu dæmin um bóluhagkerfi er fóru illa þegar fasteignaverð hrundi í aðdraganda fjármálakreppunnar.  Áhugavert er að bera saman þróun fasteignaverðs hér á landi við þróun í fyrrgreindum ríkjum, þ.e.a.s. þar sem hætta er á bólu og þar sem bólan hefur sprungið, og sjá hvar við stöndum.

Þrátt fyrir að fasteignaverð hér á landi hafi hækkað töluvert undanfarin ár þá eru fasteignir í miðbæ Reykjavíkur (mældar í evrum), sem teljast til dýrustu eigna landsins, með töluvert lágan verðmiða í samanburði við aðrar borgir í Evrópu og Norður Ameríku. Þannig er Reykjavík í 13. neðsta sætinu á meðan öll ofangreind samanburðalönd eru mun ofar. Einnig ná austur-evrópsku borgirnar Búkarest (Rúmeníu)  og Ljubljana (Slóvenía) hærra á lista en Reykjavík, þrátt fyrir að Ísland standi betur á flesta efnahagslega mælikvarða s.s. hagvöxt, atvinnuleysi og tekjur. Því má velta fyrir sér í þessu samhengi hvort fasteignir í miðbænum séu þrátt fyrir allt lágt verðlagðar?

Sjá nánari umfjöllun: Viðráðanlegt verð.pdf