Spáum lækkun stýrivaxta um 25 punkta í febrúar

Spáum lækkun stýrivaxta um 25 punkta í febrúar

Við spáum því að peningastefnunefnd Seðlabankans kjósi að lækka stýrivexti um 25 punkta á næsta vaxtaákvörðunarfundi þann 4. febrúar nk. Helstu rök fyrir lækkun vaxta eru þau að aðhald peningastefnunnar er að okkar mati meira en efnahags- og verðbólguhorfur gefa tilefni til. Einnig eru efnahagshorfur á alþjóðavísu veikari nú en áður var áætlað en nýleg hagvaxtarspá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir heiminn var í heild færð niður um 0,3 prósentustig í 3,5% fyrir árið 2015. Verðbólguálag á skuldabréfamarkaði er svipað og það var við síðasta vaxtaákvörðunarfund sem bendir til þess að kjölfesta verðbólguvæntinga sé að aukast um þessar mundir. Helsti óvissuþátturinn er hver niðurstaða kjarasamninga verður á næstu mánuðum og hvort launahækkanir verði að meðaltali verulega yfir því sem samræmist verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Óhætt er að segja að nokkurt bil sé á milli samningsaðila á hinum almenna vinnumarkaði og má því vera að Seðlabankinn kjósi að halda vöxtum óbreyttum um sinn þar til niðurstaða kjarasamninga liggur fyrir. Engu að síður er okkar mat að raunvaxtastig sé of hátt og að meiri líkur séu á stýrivaxtalækkun en að nefndin haldi vöxtum óbreyttum.

Sjá nánar 290115_Stýrivaxtaspá.pdf