Seðlabankinn færir rök fyrir vaxtalækkun - en heldur vöxtum óbreyttum

Seðlabankinn færir rök fyrir vaxtalækkun - en heldur vöxtum óbreyttum

Peningastefnunefnd Seðlabankans kaus að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum þvert á spár helstu greiningaraðila og væntingar markaðsaðila, en almennt var búist við 25 punkta stýrivaxtalækkun. Í yfirlýsingu nefndarinnar, sem var gefin út samhliða ákvörðuninni, virtust þó flest rök hníga að því að lækka vexti. Skv. nýútgefnum Peningamálum hefur verðbólguspá Bankans hliðrast töluvert niður á við – talið er að verðbólga verði aðeins 0,5% á fyrsta ársfjórðungi þessa árs og er nú gert ráð fyrir að verðbólga haldist undir markmiði vel fram á næsta ár. Talsverðar lækkanir hrávöruverðs, sér í lagi olíu, lítil verðbólga á alþjóðavísu og stöðug króna hafa stutt við lágt verðbólgustig, en einnig hafa verðbólguvæntingar heimila og markaðsaðila færst niður á undanförnum mánuðum og samræmast nú nokkurn veginn verðbólgumarkmiði Seðlabankans.

En hví lækkaði peningastefnunefnd þá ekki vexti? Helstu rökin fyrir því að halda vöxtum óbreyttum voru þau að óvissa ríkir á vinnumarkaði um þessar mundir. Nú þegar hafa einhverjar starfsstéttir samið um launahækkanir sem eru yfir verðbólgumarkmiði Bankans og útlit er fyrir að þeir sem eru í þann mund að setjast að samningaborðinu verði með kröfur um talsverðar launahækkanir. Kröfurnar hafa þó ekki verið fullmótaðar og þaðan af síður samþykktar svo að óvissan er vissulega veruleg. Einnig var nefnt að olíuverð, áhrifaþáttur sem peningastefnunefnd getur ekki haft áhrif á og horfir því framhjá að þessu sinni, gæti hækkað skarpt á ný og skilað sér út í verðbólgu.

Sjá nánar: 040215_Óbreyttir vextir.pdf