Snjóhengjan minnkar um 12 milljarða

Snjóhengjan minnkar um 12 milljarða

Síðasta tilkynnta gjaldeyrisútboð Seðlabankans fór fram í gær og voru niðurstöðurnar um margt áhugaverðar. Seðlabankinn rýmkaði heimildir í aðdraganda útboðsins og leyfði nú í fyrsta sinn þátttöku erlendra aðila sem eiga krónur hérlendis vegna útgreiðslu forgangskrafna í innlend þrotabú. Samkvæmt mati Greiningardeildar bættust þar við allt að 24 ma.kr. sem höfðu heimild til þátttöku og gerðum við því ráð fyrir að þátttakan gæti orðið nokkuð meiri en í undanförnum útboðum.

Raunar var þátttakan í útgönguleggnum, þ.e. óþolinmóðir krónueigendur sem vildu fá evrur í skiptum fyrir krónurnar, enn meiri en við áttum von á. Tilboð bárust fyrir 57,9 ma.kr. en það er næsthæsta upphæð sem borist hefur frá upphafi útboðanna í júní 2011 og álíka há upphæð og í seinustu fimm útboðum þar á undan samanlagt. Í inngönguleggnum, þ.e. þolinmóðir evrueigendur á leið inn í landið, bárust aftur á móti aðeins tilboð fyrir 12,2 ma.kr., sem er engu að síður stærsta upphæð frá því í mars 2012. Ekki var öllum tilboðum í ríkisverðbréfaleiðina tekið en alls hlutu 11,8 milljarðar af kvikum krónum útgöngu í útboðinu í gær. Minnkaði því snjóhengjan svokallaða sem því nemur.

Í þetta sinn ákvað Seðlabankinn þrjú mismunandi gengi. Þeir sem komu inn í gegnum ríkisverðbréfaleiðina fengu 178 krónur fyrir hverja evru, en þeir sem komu inn í gegnum fjárfestingarleiðina fengu 195 krónur á evru. Þeir síðarnefndu þurfa reyndar að kaupa krónur á álandsgengi fyrir helminginn af þeim evrum sem þeir koma með inn í landið í gegnum fjárfestingarleiðina og fá því meðalgengið 172 krónur eða svo. Þeir sem vildu út með sínar krónur þurftu aftur á móti að greiða 200 krónur fyrir hverja evru.

Sjá nánar: 110215_Snjóhengjan minnkar um 12 milljarða.pdf