Er ójafnvægi á milli framboðs og eftirspurnar á vinnumarkaði?

Er ójafnvægi á milli framboðs og eftirspurnar á vinnumarkaði?

Við í greiningardeild Arion banka erum, eins og flestir, sammála um að menntun og mannauður sé grundvöllur hagsældar í samfélaginu. Þrátt fyrir það eru ákveðin takmörk á því að hve miklu leyti aukin menntun skilar sér í hagkerfið. Við myndum ekki komast langt ef meirihluti þeirra sem fara í háskóla myndu t.d. einungis læra hagfræði, því þó okkur finnist að það mætti víðar kenna hugtök eins og fórnarkostnaður og verðteygni, þá nýtist sú þekking afar takmarkað á mörgum vinnustöðum landsins.

Í nýlegu tölublaði The Economist er greint frá því að í Bandaríkjunum og víðar hafi verið algjör sprenging í háskólamenntun. Velta menn vöngum yfir því hvort þessi mikla aukning menntunar sé í öllum tilfellum góð fyrir vinnumarkaðinn. Ástæðan er sú að það eru sterkar vísbendingar um að háskólagráður í sjálfu sér, en ekki það sem fólk lærir, sé það sem atvinnurekendur horfi til. Ef svo er þá er menntunin frá sjónarhóli vinnumarkaðsins mjög dýr leið til aðgreiningar starfsfólks þar sem háskólamenntun tekur yfirleitt að lágmarki 3 ár. Taka skal fram að þetta er þröngt sjónarhorn sem tekur ekki tillit til annarra og oft jákvæðra áhrifa menntunar.

Í Danmörku eru vísbendingar um að eitthvað þessu líkt hafi átt sér stað þar sem mikið ójafnvægi virðist vera milli þarfa vinnumarkaðarins og menntunar fólks. En hvernig er þetta á Íslandi? Undanfarið hefur nokkuð borið á því að talað sé um skort á t.d. iðnaðarmönnum annars vegar en hins vegar offramboð á til að mynda lögfræðingum. Í byrjun árs birtust tölur um fjölgun starfa árið 2014 þar sem kom í ljós að hún var langmest meðal ósérhæfðs starfsfólks og starfsfólks í þjónustustörfum. Það er því vel þess virði að spyrja: Er mikið ójafnvægi milli framboðs og eftirspurnar á vinnumarkaði á Íslandi með tilliti til menntunar?

Sjá nánar: 070415_Ójafnvægi á vinnumarkaði.pdf