Efnahagshorfur 2015-2017: Ólga í lygnum sjó

Efnahagshorfur 2015-2017: Ólga í lygnum sjó

Greiningardeild stóð fyrir morgunfundi í morgun þar sem hagspá deildarinnar til ársins 2017 var kynnt. Að þessu sinni ber hagspáin titilinn: Ólga í lygnum sjó. Hagkerfið virðist vera í góðu jafnvægi um þessar mundir og hagvaxtarhorfur til næstu tveggja ára eru meðal þeirra bestu í heimi, en stórir áhættuþættir eru til staðar. Ber þar helst að nefna vinnumarkaðinn og harðan tón í aðdraganda kjarasamninga, en einnig yfirvofandi afnám gjaldeyrishafta. Greiningardeild spáir því að hagvöxtur áranna 2015-2017 verði nálægt langtímameðaltali og að hann verði drifinn áfram af talsverðum vexti í fjárfestingu og einkaneyslu. Þá er gert ráð fyrir að framlag utanríkisviðskipta verði jákvætt á næstu tveimur árum.

Einnig var fjallað um þá þætti sem munu hafa áhrif á gengi krónunnar eftir afléttingu hafta og telur Greiningardeild að undirliggjandi þættir í hagkerfinu muni styðja við gengi krónunnar á næstu misserum. Þó að skammtímasveiflur eftir afnám hafta gætu átt sér stað er líklegt að krónan eigi inni nokkra styrkingu til lengri tíma, enda hefur Seðlabankinn lagst þungt gegn styrkingu síðastliðið ár. Mikil styrking krónunnar væri þó ekki endilega ákjósanleg sökum þess að nauðsynlegt er að viðhalda viðskiptaafgangi næstu árin svo unnt verði að þjónusta erlendar skuldir þjóðarbúsins.

Þá var farið yfir þá þætti sem talið er að muni lita fjármálamarkaði í ár. Þegar litið er á framboð og eftirspurn á fjármálamörkuðum bendir margt til þess að árið verði frekar hagfellt á eignamörkuðum. Frekar lítið framboð er af verðtryggðum skuldabréfum og er eftirspurnin meiri en framboðið. Óverðtryggð eiga frekar undir högg að sækja um þessar mundir en áhyggjur fjárfesta af kjarasamningum og aukinni verðbólgu fara vaxandi. Hvað hlutabréfamarkaðinn varðar eru arðgreiðslur skráðra félaga á markaði fyrirferðamiklar og er því eftirspurnin á hlutabréfamarkaði meiri en framboðið að okkar mati. Þróun fjármálamarkaða mun að miklu leyti litast af því hver niðurstaða kjarasamninga verður
og hvort og þá hvernig skref verða stigin í átt að afnámi gjaldeyrishafta.

Glærur sem fyrirlesarar studdust við má sjá með því að smella á hlekkina: 

Regína Bjarnadóttir, forstöðumaður greiningardeildar: Hagspá apríl 2015.pdf

Anna Hrefna Ingimundardóttir, hagfræðingur í greiningardeild: Akkerum lyft.pdf

Hrafn Steinarsson, hagfræðingur í greiningardeild: Hvað mun lita fjármálamarkaði.pdf