Þjóð úr höftum

Þjóð úr höftum

Seðlabankinn gaf nýlega út ritið Fjármálastöðugleiki þar sem fram kom að skilyrði til afnáms gjaldeyrishafta væru almennt hagstæð um þessar mundir. Einnig var þar áréttað að mikillar varúðar þyrfti að gæta við losun þeirra svo unnt væri að viðhalda þeim stöðugleika sem náðst hefur í þjóðarbúinu að undanförnu. Lítið hefur verið gefið upp nákvæmlega um þær aðferðir sem stjórnvöld hyggjast beita til að ná því markmiði en líklegt má telja að farið verði í meginatriðum eftir þeirri áætlun sem lögð var fram af íslenskum stjórnvöldum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum árið 2011.

Yfirlýsingar fjármálaráðherra og seðlabankastjóra á ársfundi Seðlabankans, sem og orð forsætisráðherra á flokksþingi Framsóknarflokksins, gefa til kynna að það styttist í að lagt verði fram frumvarp þar sem leiðin fram á við í átt að afnámi gjaldeyrishafta verði kunngjörð. Í nýlegu útvarpsviðtali talaði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, um að í ferlinu fælist m.a. að leggja svonefndan stöðugleikaskatt á slitabú föllnu bankanna. Snjóhengjan (kvikar krónur í eigu erlendra aðila utan slitabúanna) yrði aftur á móti leyst með útboðum á ákveðnum fjárfestingarleiðum, en höft yrðu afnumin á innlenda markaðinn í nokkrum skrefum.

Sjá nánar: 040515_Þjóð úr höftum.pdf