Eru örvunaraðgerðir Evrópska seðlabankans að virka?

Eru örvunaraðgerðir Evrópska seðlabankans að virka?

Frá og með árinu 2011 hefur verðbólga á evrusvæðinu farið minnkandi og í lok seinasta árs glímdu aðildarríki myntbandalagsins við verðhjöðnun. Eftir að hafa lækkað vexti í tvígang á árinu 2014 niður í yfirlýst lágmark kynnti Evrópski seðlabankinn ýmsar mögulegar aðgerðir til þess að koma verðbólgu í markmið á ný og styðja við efnahagsbata á svæðinu. Um áramótin endurmat Evrópski seðlabankinn verðbólguhorfur og þann árangur sem peningastefnan hafði náð fram að þeim tíma, en hann var vitaskuld ekki talinn nægjanlegur þar sem evrusvæðið glímdi við verðhjöðnun og verðbólguvæntingar á evrusvæðinu voru í sögulegu lágmarki. Í kjölfar þess, í lok janúar á þessu ári, tilkynnti Evrópski seðlabankinn svo endanlega um útfærslu nýrra aðgerða. 

Þar sem ekki var unnt að lækka vexti frekar tilkynnti bankinn um nýjar aðgerðir sem fólu í sér peningalega örvun (e. quantitative easing/QE) og áttu að ná sama árangri og vaxtalækkanirnar, þ.e. ná verðbólgu nær 2% markmiðinu. Bankinn tilkynnti um uppkaup á skuldabréfum, eignatryggðum verðbréfum og sértryggðum bréfum á opnum markaði fyrir 60 milljarða evra á mánuði sem myndu auka peningamagn í umferð. Lagt var upp með að kaupin stæðu frá mars 2015 til septemberloka 2016 eða þar til verðbólga stæði undir, en nálægt, 2% til meðallangs tíma. Þetta þýðir því uppkaup á eignum fyrir a.m.k. 1.100 milljarða evra. Aðgerðirnar eru sannanlega umdeildar, líkt og þegar sams konar aðgerðir hófust vestra árið 2008, og ekki eru allir jafn vissir um að tilsettur árangur náist. Enda gæti rangt mat á áhrifum svo umfangsmikilla aðgerða haft skaðlegar afleiðingar fyrir evrópska hagkerfið til lengri tíma litið.

Sjá nánar: 150515_ÖrvunaraðgerðirECB.pdf