Nýting hótelherbergja enn að aukast

Nýting hótelherbergja enn að aukast

Þrátt fyrir talsverða fjölgun gistirýma á undanförnum árum hefur nýting hótelherbergja víðast hvar á landinu haldið áfram að batna ár frá ári. Áhyggjuraddir hafa heyrst víða vegna mögulegrar offjárfestingar í hótelbyggingum, enda hefur verið mikið um nýbyggingu hótela í miðbæ Reykjavíkur og víðar að undanförnu og fleiri áform eru á teikniborðinu. Fjárfestingarnar virðast hingað til ekki hafa komið niður á nýtingarhlutfalli hótelherbergja, en hafa ber í huga að enn er von á talsverðri framboðsaukningu hótelherbergja á næstu misserum, svo ekki sé minnst á annars konar gistirými. Meiri óvissa ríkir um eftirspurnina þar sem erfitt er að spá fyrir um komur ferðamanna hingað til lands mörg ár fram í tímann. Að undanförnu hefur vöxturinn þó haldið áfram að koma jafnvel bjartsýnustu mönnum á óvart, en metaukning var í komum ferðamanna í maí, júní og júlí síðastliðnum hvort sem litið er til höfðatölu eða hlutfallslegrar fjölgunar. Var markið þó ekki sett lágt.

Sjá nánar: 110815_hotelnyting.pdf