Vísitala neysluverðs hækkar um 0,53% í ágúst

Vísitala neysluverðs hækkar um 0,53% í ágúst

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,53% frá fyrri mánuði samkvæmt nýrri mælingu Hagstofunnar. Mælingin kom flestum á óvart en spár greiningaraðila lágu á bilinu 0,1% til 0,5% og spáðum við 0,2% hækkun. Tvennt stendur upp úr í mælingu Hagstofunnar að þessu sinni. Í fyrsta lagi hækkar innlend þjónusta og neysluvörur umfram það sem við spáðum. Þar vegur þyngst hækkun matarkörfunnar (+0,16% áhrif á VNV), aðrar vörur og þjónusta (+0,05%) og hótel og veitingastaðir (+0,04%). Að okkar mati má rekja hluta af þessum hækkunum til vaxandi verðbólguþrýstings innanlands vegna vaxandi launakostnaðar í kjölfar kjarasamninga. Í öðru lagi lækkuðu flugfargjöld til útlanda minna en greiningaraðilar gerðu ráð fyrir (-0,05% áhrif á VNV) þrátt fyrir lækkandi olíuverð og þá staðreynd að ágúst hefur gjarnan verið útsölumánuður hvað flugfargjöld varðar. Að öðru leyti ganga sumarútsölur til baka (föt og skór +0,21% áhrif á VNV) og húsnæðisliðurinn hækkar (+0,14% áhrif á VNV).

Sjá nánar 270815_Verðbólga_ágúst.pdf