Þjónustuviðskipti - stefnir í Íslandsmet

Þjónustuviðskipti - stefnir í Íslandsmet

Afgangur af þjónustuviðskiptum nam tæpum 55 milljörðum króna á 2. ársfjórðungi sem er 23 milljörðum krónum meira en á sama tíma í fyrra miðað við fast gengi. Þjónustujöfnuð má skilgreina sem mismun á útfluttri þjónustu frá Íslandi og innfluttri þjónustu. Ekki kemur á óvart að ferðaþjónusta skiptir þarna langmestu máli. Krónan hefur styrkst nokkuð undanfarið svo munurinn væri minni ef ekki væri leiðrétt fyrir gengi. Aldrei hefur þjónustuafgangur mælst jafnmikill á öðrum ársfjórðungi og er þessi liður sífellt að verða mikilvægara í utanríkisviðskiptum landsins. Helsta ástæðan er vel þekkt og eins og sjá má á myndinni hér að neðan hefur þjónustuafgangur síðustu ára haldist nær algjörlega í hendur við þjónustuafgang af ferðalögum og samgöngum, sem skýrist af mikilli fjölgun erlendra ferðamanna á Íslandi. Haldi þessi þróun áfram má reikna með því að met verði slegið í þjónustuafgangi á árinu, en í fyrra nam hann nærri 140 milljörðum króna.

Sjá nánar: 010915_thjonustujofnudur.pdf