Spá úrslit Super Bowl fyrir um gengi hlutabréfamarkaðar?

Spá úrslit Super Bowl fyrir um gengi hlutabréfamarkaðar?

Fimmtugasti úrslitaleikur ameríska fótboltans, betur þekktur sem Super Bowl, fer fram á Levi‘s leikvanginum í Santa Clara í Kaliforníu á sunnudagskvöld. Í úrslitaleiknum, sem talað er um sem einvígi milli gömlu og nýju útgáfunnar af leikstjórnendum ameríska fótboltans mætast annarsvegar sigurvegarar Þjóðardeildarinnar (NFC), Carolina Panthers, og hinsvegar sigurvegarar Ameríkudeildarinnar (AFC), Denver Broncos. Leikurinn er stærsti íþróttaviðburður hvers árs og það sjónvarpsefni sem er með mest áhorf í Bandaríkjunum. Sem dæmi má nefna að 30 sekúndna auglýsing á meðan útsendingu frá leiknum stendur kostar um 5 milljónir Bandaríkjadollara, eða sem jafngildir um 650 milljónum íslenskra króna. Þá eru einnig ríkar neysluhefðir í kringum leikinn þar sem fjölskyldur og vinir hittast – en talið er að Bandaríkjamenn slafri í sig 1,25 milljörðum kjúklingavængja yfir leiknum. Einhverjar veigar þarf svo til að skola niður öllum þessum vængjum og hefur verið áætlað að 325 milljón gallon af (létt)bjór sé neytt í kringum leikinn.

Efnahagsleg áhrif aðdraganda leiksins eru því töluverð, bæði á gestgjafana sem og Bandaríkin í heild sinni. En úrslitin úr leiknum eru ekki síður mikilvæg því þau gefa fyrirheit um þróun eignamarkaða vestanhafs og þá sérstaklega þróun hlutabréfamarkaðarins. Það er að minnsta kosti það sem Super Bowl vísirinn (e. The Super Bowl Indicator) gengur út á. Í sem skemmstu máli gengur kenningin út á það að ef sigurvegari Super Bowl kemur úr gömlu Þjóðardeildinni (NFL) þá muni bandarískur hlutabréfamarkaður, yfirleitt mældur með Dow Jones vísitölunni, hækka á yfirstandandi ári. En ef sigurvegari leiksins kemur úr gömlu Ameríkudeildinni (AFL) muni markaðurinn lækka.

Uppruni kenningarinnar er talinn eiga rætur að rekja aftur til ársins 1978 þar sem Leonard Koppett, íþróttafréttamaður hjá New York Times, á að hafa skrifað pistil í blaðið þar sem kenningin er sett fram. Af ellefu skiptum sem Super Bowl hafði farið fram þá hafi vísirinn spáð rétt fyrir í tíu þeirra.

Heimildir: Greiningardeild Arion banka, NFL og Bloomberg

Fyrsti Super Bowl leikurinn fór fram árið 1967 og því hafa 49 sigurvegarar verið krýndir. Myndin hér að ofan sýnir ársávöxtun Dow Jones vísitölunnar allt aftur til ársins 1967 ásamt merkingu hvort sigurvegari Super Bowl hafi spáð rétt fyrir um þróun hlutabréfamarkaðarins það ár. Í þessi 49 skipti sem Super Bowl leikurinn hefur farið fram hafa úrslit leiksins spáð rétt fyrir um þróun hlutabréfamarkaðarins í 40 skipti – eða 82% tilvika. Níu skiptin sem kenningin hefur spáð rangt fyrir síðastliðna tæpu hálfa öld eru fimm þeirra þar sem markaðurinn lækkaði en sigurvegarinn kom úr Þjóðardeildinni og fjögur þeirra þar sem hann hækkaði en sigurvegarinn kom úr Ameríkudeildinni. Þá hefur á síðastliðnum 49 árum ávöxtun Dow Jones vísitölunnar á ársgrundvelli verið að meðaltali 11,3% þegar lið úr Þjóðardeildinni vinnur á meðan meðalávöxtunin er lítillega neikvæð þegar lið úr Ameríkudeildinni hefur unnið.

Heimildir: Greiningardeild Arion banka, NFL og Bloomberg

Á síðustu tíu árum er sannspárhlutfall Super Bowl vísisins enn tilkomumeira, en síðastliðinn áratug hefur kenningin spáð rétt fyrir um markaðsþróun í níu af þessum tíu skiptum. Kreppan virðist þó heldur hafa komið Super Bowl vísinum á óvart eins og fleirum því þetta eina ár á síðastliðnum áratug sem kenningin hefur haft rangt fyrir sér var árið 2008 þegar Dow Jones vísitalan lækkaði um heil 34%.

Vísirinn er hinsvegar á sjö ára sigurgöngu, þeirri næst lengstu í tæplega fimm áratuga sögu Super Bowl, og líkt og sjá má á myndinni hér að ofan spáði Super Bowl vísirinn rétt fyrir um fyrstu lækkun hlutabréfamarkaðarins frá 2008 á síðasta ári þegar New England Patriots úr Ameríkudeildinni unnu ótrúlegan sigur á Seattle Seahawks úr Þjóðardeildinni.

Þá hefur háskólaprófessor við Háskólann í Arizona einnig rannsakað og fundið út að fjórum vikum eftir Super Bowl hefur hlutabréfaverð að meðaltali hækkað um rúmt 1% eftir sigur liðs úr Þjóðardeildinni á meðan markaðurinn hefur að meðaltali lækkað um 0,1% eftir sigur liðs úr Ameríkudeildinni. Það gefur ekki til kynna að markaðsaðilar vestanhafs trúi á kenninguna í blindni – en þó etv. þannig að þeir líti ekki algjörlega fram hjá henni.

Líklega myndi margur tölfræðingurinn afskrifa kenninguna með öllu og benda á að hér væri einfaldlega um bullfylgni, eða delluaðhvarf, að ræða. Þrátt fyrir að það sé sterk fylgni á milli úrslitanna og ávöxtunar á hlutabréfamarkaði eru orsakatengslin hinsvegar í besta falli óljós. Þá hafa helstu gagnrýnisraddir kenningarinnar einnig bent á það að hlutabréfamarkaðurinn hækkar oftar en ekki og sömuleiðis vinnur lið úr Þjóðardeildinni oftar Super Bowl en lið úr Ameríkudeildinni. En að teknu tilliti til þess ætti kenningin þó einungis að hafa rétt fyrir sér í tæplega 60% tilvika, en ekki rúmlega 80% eins og raunin er.

Veðbankar virðast á einu máli að Carolina Panthers sé sigurstranglegra liðið á sunnudaginn og ef svo verður raunin mun heldur betur reyna á mátt kenningarinnar því hlutabréfamarkaðir almennt hafa ekki farið vel af stað og Dow Jones vísitalan til að mynda lækkað um tæp 8% það sem af er ári. Standi Cam Newton og félagar í Carolina Panthers uppi sem sigurvegarar Super Bowl aðfaranótt mánudagsins má því samkvæmt kenningunni vænta að hlutabréfamarkaðurinn vestanhafs rétti úr kútnum og nái sér á strik það sem eftir lifir árs. En á móti ef Payton Manning og félagar í Denver Broncos fara með sigur af hólmi má vænta þess að markaðurinn vestanhafs endi í lægri gildum en hann hóf árið. Við leyfum þér lesandi góður hinsvegar að taka ákvörðun um trúverðugleika eða tilviljanakennd þessarar kenningar – því höfundurinn setti hana upphaflega fram í gríni.