Vísbendingar um kröftugan hagvöxt á 4. ársfjórðungi 2015

Vísbendingar um kröftugan hagvöxt á 4. ársfjórðungi 2015

Ýmsar vísbendingar benda til þess að nokkur uppgangur hafi verið í hagkerfinu á síðasta ársfjórðungi ársins 2015, líkt og síðustu misseri, og að svo verði áfram til skemmri tíma hið minnsta. Helstu rökin fyrir því sem hér er fjallað um eru:

  • Atvinnuleysi dróst hraðar saman en við reiknuðum með og var 3,1%, sbr. 3,5% í spá okkar.
  • Neysla ferðamanna í krónum talin virðist hafa aukist nokkuð, auk þess sem ferðamönnum hefur fjölgað.
  • Kortavelta Íslendinga hér á landi og erlendis hefur sömuleiðis aukist.
  • Hátíðnivísbendingar benda ekki til áframhaldandi samdráttar íbúðafjárfestingar.

Hagvöxtur á fyrstu 9 mánuðum ársins var 4,5% en í síðustu Hagspá okkar spáðum við 5,4% hagvexti fyrir árið í heild. Tölur um landsframleiðslu á síðasta ársfjórðungi 2015 verða birtar 10. mars nk. en eins og við rekjum hér á eftir verða þær líklega í stórum dráttum í takt við spár og fjórðungana þar á undan. Á morgun birtir Seðlabankinn Peningamál með uppfærðri efnahagsspá þar sem falist gætu frekari vísbendingar um hver niðurstaðan verður.

Miklar launahækkanir samhliða einstaklega hagfelldu verðbólguumhverfi hafa gert það að verkum að kaupmáttur launa jókst um 6,7% milli ára á síðasta ársfjórðungi. Eins og sést á myndinni hér að neðan fylgist kaupmáttur að nokkru leyti helstu stærðum úr þjóðhagsreikningum. Miðað við nýjustu kjarasamninga ASÍ og SA, sem fela í sér 0,7-1,5 prósentustig ofan á áður umsamdar launahækkanir, mun kaupmáttur halda áfram að aukast hratt á yfirstandandi ári ef verðbólga helst áfram lítil. Slíkt ætti að óbreyttu að auka á þenslu í hagkerfinu til skemmri tíma. Á móti kemur að Seðlabankinn gæti hækkað vexti meira en ella eftir kjarasamningana frá því í janúar sem hefði einhver mótvægisáhrif.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka. *Byggt á %-breytingu fyrstu 9 mánuði ársins, fyrir utan kaupmátt.

Spenna myndast á vinnumarkaði

Ekki hefur dregið úr vinnuaflseftirspurn þrátt fyrir miklar launahækkanir – þvert á móti. Atvinnuleysi í desember sl. mældist 1,9% skv. Hagstofunni en til samanburðar var það 2,4% í sama mánuði árið 2007. Atvinnuleysi á fjórða fjórðungi mældist þó nokkuð meira eða 3,1% sem er þó 0,4 prósentum undir spá okkar. Atvinnuleysi á árinu 2015 var því 4% að meðaltali sem telst lítið á flesta mælikvarða og í alþjóðlegum samanburði. Miðað við hver þróunin hefur verið og það sem er í kortunum, t.d. vegna aukinnar fjárfestingar og fjölgunar ferðamanna, er augljóst að vinnumarkaðurinn nálgast þolmörk þannig að nauðsynlegt er að flytja inn erlent vinnuafl í meira mæli á næstu mánuðum.

Heimild: Hagstofa Íslands.

Sé rýnt nánar í atvinnuleysistölur Hagstofunnar var atvinnuleysi sem fyrr langmest meðal ungs fólks árið 2015. Atvinnuleysi 16-24 ára var 8,7% á meðan atvinnuleysi 25-54 ára var 3,2% og 2,6% hjá 55-74 ára.

Posarnir hitna – neysla Íslendinga og ferðamanna eykst

Ferðamönnum fjölgaði hratt í fyrra líkt og síðustu ár. Svo hröð er fjölgunin að greiningaraðilar og flestir aðrir hafa nær undantekningalaust vanspáð fjölgun ferðamanna síðustu ár. Síðasti ársfjórðungur var engin undanteking þar sem ferðamönnum fjölgaði um meira en 16 þúsund umfram okkar spá í september. Þar að auki jókst kortavelta hvers ferðamanns um 2% á föstu verðlagi en um 11% á föstu gengi. Það má því reikna með að það hafi verið talsverður vöxtur þjónustuútflutnings á síðasta ársfjórðungi. Í Markaðspunkti í ársbyrjun reiknuðum við með tæplega 120 milljarða króna þjónustuútflutningi á fjórðungnum og um 20 ma.kr. þjónustuafgangi, sem myndi þýða ca. 190 ma.kr. afgang af þjónustuviðskiptum fyrir árið í heild.

Íslendingar hafa einnig verið nokkuð iðnari við að strauja kortin sín undanfarið eins og sést á myndinni hægra megin að neðan. Heildarkortavelta hefur ekki aukist jafn mikið á einum ársfjórðungi sl. 2 ár eða um 5,2% á 4. ársfjórðungi í fyrra. Kortavelta erlendis hefur aukist nokkru meira (23%) en kortavelta innanlands (4,5%) samhliða aukningu á utanlandsferðum landsmanna.


Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka. Kortavelta á hægri mynd er skilgreind sem öll íslensk kortavelta að undanskildum fyrirtækjakortum.

Horfir betur við íbúðafjárfestingu?

Fjárfesting á fyrstu 9 mánuðum 2015 var nokkuð undir væntingum okkar sem skýrist að mestu leyti af 7% samdrætti í íbúðafjárfestingu. Þessi þróun skýtur vægast sagt skökku við á tíma efnahagsuppgangs, sjáanlegs skorts á vissum tegundum íbúðarhúsnæðis og hækkandi íbúðaverðs, eins og við höfum áður fjallað um og horft þá m.a. til upplýsinga um veltu og innflutning. Með hliðsjón af af því sem kom fram þá er þrennt sem horfir e.t.v. betur við íbúðafjárfestingu nú.

Í fyrsta lagi hefur taktur veltuaukningar í byggingastarfsemi aukist aðeins miðað við nýjustu tölur frá september-október þar sem aukningin milli ára nemur 23,2%. Í öðru lagi hefur sementssala haldið áfram að aukast og í nóvember sl. jókst hún um 3% milli mánaða en 16% milli ára. Í þriðja lagi hefur innflutningur á ýmsum iðnaðarvörum aukist aðeins hraðar en á fyrstu 10 mánuðum eins og sést hér að neðan. T.d. hefur innflutningur á steypustyrktarjárnum snúist úr 7% samdrætti í 13% aukningu.


 Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Það er þó fleira hægt að byggja með timbri, sementi og steypustyrktarjárnum. Erlendir ferðamenn þurfa einnig þak yfir höfuðið og á árinu 2015 voru tekin í notkun um 900 ný hótelherbergi á landinu, þar af rúmlega 700 á höfuðborgarsvæðinu. Útlit er fyrir að hótelherbergjum á landinu muni fjölga um rúmlega 3.000 á næstu árum svo ekkert lát virðist vera á. Sú þróun gæti að óbreyttu þrengt enn frekar að húsnæðismarkaðinum því eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði er að aukast um þessar mundir.