Óbreyttir vextir og svipaður tónn

Óbreyttir vextir og svipaður tónn

Vaxtaákvörðun peningastefnunefndar var kynnt í morgun og var vöxtum haldið óbreyttum. Greiningaraðilar höfðu spáð óbreyttum vöxtum og virðist sem vaxtaákvörðunin hafi einnig verið í takt við væntingar á markaði þar sem krafa óvertryggðra ríkisskuldabréfa breyttist lítið. Samhliða vaxtaákvörðuninni voru gefin út Peningamál þar sem hagvaxtarspá bankans var lækkuð úr 4,6% í 4,1% fyrir 2015, en hækkuð úr 3,2% í 4,2% í ár.

Þrátt fyrir óbreytt skilaboð hefur ýmislegt breyst

Þrátt fyrir að vextir og tónn nefndarinnar séu óbreyttir er margt sem hefur breyst frá síðustu vaxtaákvörðun frá því í lok síðasta árs.
Í fyrsta lagi hefur verðbólguspá bankans verið færð töluvert niður á við og nálægt okkar spá fram eftir þessu ári. Í nóvember spáði Seðlabankinn 3,3% verðbólgu í ár en nú er spáð 2,3% verðbólgu að meðaltali. Aftur á móti er spáð 0,1 prósentustigs meiri verðbólgu árið 2017 eða 4,1%. Í þessu birtast áhrif mikilla launahækkana, en spár um launahækkanir (þ.e. launakostnaður á framleidda einingu) hafa verið færðar upp um 1,2 prósentustig í ár og 0,5 prósentustig fyrir 2015. Á sama tíma er kaupmáttur ráðstöfunartekna að aukast mun hraðar en áður var gert ráð fyrir eða um 8,7% í ár sbr. við 6,7% í fyrri spá.

  

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Í öðru lagi er einmitt gert ráð fyrir talsvert meiri hagvexti í ár eða 4,2%, sbr. 3,2% í nóvember. Sú breyting skýrist að mestu leyti af aukinni einkaneyslu (5,3%) en einnig af aukinni fjárfestingu og ekki eins neikvæðu framlagi utanríkisviðskipta og gert var ráð fyrir áður.

 

Heimild: Seðlabanki Íslands

Í þriðja lagi hafa horfur erlendis breyst mikið. Olíuverð hefur lækkað um nær þriðjung frá í nóvember þvert á viðmið Seðlabankans. Áfram gera spár, sem Seðlabankinn byggir á, ráð fyrir að olíuverð taki að hækka eitthvað á ný eins og t.d. felst í framvirku olíuverði en um það ríkir mikil óvissa. Þá hafa hagvaxtarhorfur víða erlendis versnað og hefur það jafnan verið rakið til vandræða í Kína og nýmarkaðsríkjum. Það endurspeglast í því að hagvöxtur verður 1,9% í helstu viðskiptalöndum okkar í ár, sbr. 2% í nóvemberspánni

Gætum séð mótvægi við 75 punkta hækkun vegna losunar hafta

Eins og við höfum fjallað um, t.d. í okkar síðustu stýrivaxtaspá, mun uppgjör slitabúa og útboð aflandskróna draga verulega úr lausafé í bankakerfinu. Það leiðir væntanlega til þess að bankarnir muni þá leita í veðlán frá Seðlabankanum í stað þess að eiga þar innlán. Þetta gæti verið ígildi 75 punkta stýrivaxtahækkunar á skömmum tíma sem myndi auka aðhaldsstigið sem því nemur. Raunstýrivextir nú eru um 3,6% en færu vel yfir 4% ef þessi breyting verður á næsta hálfa ári eða svo.

Á kynningarfundi um vaxtaákvörðunina í morgun sagði Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans og nefndarmaður í peningastefnunefnd, að ætlunin sé að minnkun lausafjár hafi ekki áhrif á aðhaldsstig peningastefnunnar. Ef hækkun um 75 punkta mun þykja of mikil gæti Seðlabankinn ákveðið að þrengja vaxtaganginn eða lækka vexti bankans til mótvægis. Þegar kemur að þessu mun peningastefnunefndin horfa til millibankavaxta. Ef það gerist á vormánuðum að virkir vextir hækki um 75 punkta og verðbólguhorfur haldast tiltölulega óbreyttar frá því sem nú er, teljum við líklegt að vextir verði lækkaðir, mögulega um 25 punkta, til mótvægis.

Margt að falla þjóðarbúinu í hag

Það er óhætt að segja að ýmsir utanaðkomandi þættir séu að falla þjóðarbúinu í hag um þessar mundir. Í fyrsta lagi má nefna að viðskiptakjör halda áfram að batna, um 2,3%á þessu ári skv. spá Seðlabankans, vegna hagstæðara verðs útflutningsafurða og lækkunar olíuverðs. Í öðru lagi stendur vöxtur ferðaþjónustunnar undir áframhaldandi vexti þjónustuútflutnings sem mun eiga stóran þátt í að viðhalda viðskiptaafgangi á næstu misserum. Í þriðja lagi leiðir lækkun hreinnar skuldastöðu þjóðarbúsins til lægri vaxtagjalda ásamt því sem hún styrkir viðskiptajöfnuðinn í gegnum hagstæðari þáttatekjur. Hvorutveggja auðveldar næstu skref í afnámi hafta. Í fjórða lagi er áfram útlit fyrir innflutta verðhjöðnun sem dregur úr verðbólguþrýstingi meðan hún varir. Við þetta má bæta að lækkun tryggingagjalds gæti einnig dregið úr áhrifum launahækkana á verðlag. Þessir þættir endurspeglast í nýlegri verðbólguspá Seðlabankans þar sem gert er ráð fyrir 2,3% verðbólgu á þessu ári að meðaltali en það er í samræmi við okkar spá.

Það eru því margir þættir sem gera það að verkum að kaupmáttur ráðstöfunartekna getur aukist umtalsvert á þessu ári á sama tíma og verðbólga er lítil. Hafa verður þó í huga að viðsnúningur á hrávörumörkuðum getur breytt verðbólguhorfum umtalsvert á skömmum tíma og er því óvissan um verðbólguþróun til lengri tíma litið veruleg. Að lokum má benda á að sú styrking raungengisins sem virðist vera í pípunum veldur nokkrum áhyggjur og einnig aukinn slaki í ríkisfjármálum. Ekki er heppilegt að raungengið styrkist um of ef tryggja á áframhaldandi samkeppnishæfni þjóðarbúsins og sömuleiðis er óheppilegt að slakinn sé að aukast í ríkisfjármálum á sama tíma og útlit er fyrir aukna spennu í þjóðarbúinu.