Spáum 0,6% hækkun verðlags í febrúar

Spáum 0,6% hækkun verðlags í febrúar

Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,6% milli mánaða í febrúar. Gangi spáin eftir lækkar ársverðbólga úr 2,1% í 2,0%. Einu liðirnir sem lækka í mánuðinum samkvæmt okkar spá eru flugfargjöld til útlanda og eldsneytisverð. Aðrir liðir hækka og vegur þar þyngst að útsöluáhrifin ganga til baka en einnig hækkar húsnæðisverð og verð á mat og drykk. Á næstu mánuðum áætlum við að verðlag hækki um 0,5% í mars, 0,3% í apríl og 0,1% í maí. Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan standa í í 1,5% í maí.

Heimild: Greiningardeild Arion banka

Útsöluáhrifin ganga til baka og húsnæðisverð hækkar

Útsöluáhrifin ganga til baka í febrúar og hækka föt og skór (+0,24% áhrif á VNV) auk húsgagna og heimilisbúnaðar (+0,11% áhrif á VNV). Mögulegt er að hækkanirnar verði minni ef afnám tolla á föt og skó skila sér fyrr út í verðlag en við áætlum. Við spáum 0,8% hækkun húsnæðisverðs (+0,11% áhrif reiknaðrar húsaleigu á VNV) og spáum að aðrir undirliðir s.s. hiti og rafmagn og viðhald á húsnæði hækki lítillega (+0,03% áhrif á VNV). Húsnæðisliðurinn hefur því samtals +0,14% áhrif á VNV.

Matarkarfan hækkar ásamt ýmsum þjónustuliðum

Útlit er fyrir að matur og drykkjarvörur hækki (+0,09% áhrif á VNV) annan mánuðinn í röð. Að okkar mati endurspeglar það að hluta til þær breytingar sem áttu sér stað á kjarasamningum nýverið vegna SALEK samkomulagsins. Þær breytingar fela í sér að launahækkanir taka gildi 1. janúar í stað 1. maí í ár og einnig eru hækkanirnar 6,2% í stað 5,5%. Aðrir þjónustutengdir liðir hækka einnig og þar má helst nefna aðrar vörur og þjónustu (+0,05% áhrif á VNV), tómstundir og menningu (+0,06% áhrif á VNV) og hótel og veitingastaði (+0,03% áhrif á VNV). Aðrir liðir hækka minna.

Flugfargjöld lækka í verði ásamt eldsneyti

Samkvæmt okkar verðmælingum lækka flugfargjöld til útlanda um rúm 8% (-0,11% áhrif á VNV). Einnig lækkar eldsneytisverð og þar af lækkar bensín um 1,6% og dísilolía um 2,6% (samtals -0,07% áhrif á VNV). Lækkandi bensínverð áttunda mánuðinn í röð endurspeglar ágætlega þá krafta sem verka á móti verðbólguþrýstingi á innlent verðlag vegna launahækkana. Stóra spurningin er í raun hve lengi olíuverð og hrávöruverð almennt mun haldast jafn lágt og nú.

Dregur úr áhrifum innfluttrar verðhjöðnunar
Á næstu mánuðum spáum við áfram lítilli verðbólgu en útlit er fyrir að verðbólgan aukist með haustinu og verði 3% á síðasta ársfjórðungi. Í nýlegum Peningamálum gerir Seðlabankinn ráð fyrir að verðbólga verði 2,3% að meðaltali á þessu ári og er það í takt við okkar spá. Seðlabankinn gerir þó ráð fyrir meiri verðbólgu á næsta ári eða 4,1% að meðaltali en við spáum 3,3%.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Þeir kraftar sem togast á um þessar mundir eru annars vegar launahækkanir og hins vegar miklar lækkanir á hrávöruverði. Stóra spurningin er hve lengi við munum búa við áhrif af lækkandi hrávöruverði og styrkingu krónunnar. Það vekur athygli okkar að lækkun á verði innfluttra vara er minni í janúar en hefur verið undanfarna mánuði og því spurning hvort áhrif af lækkandi hrávöruverði fari dvínandi á næstunni. Að okkar mati er líklegt að áhrif af lækkandi hrávöruverði fjari út þegar líður á haustið og að verðbólguþrýstingur vegna launahækkana segi þá meira til sín.

Verðbólguþróun næstu mánuði:

  • Mars +0,5%. Föt og skór hækka áfram eftir útsölur í janúar en einnig hækkar flugliðurinn auk húsnæðisliðarins.
  • Apríl +0,3%. Fasteignaverð og flugfargjöld hækka.
  • Maí +0,1%. Hótel og veitingastaðir, aðrar vörur og þjónusta hækka ásamt fasteignaverði.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka.