Stefnir í mettun á hótelmarkaði?

Stefnir í mettun á hótelmarkaði?

Með fjölgun ferðamanna í mæli sem fæstir bjuggust við hefur myndast skortur á gistirýmum á höfuðborgarsvæðinu yfir stóran hluta ársins og á sumrin víða á landsbyggðinni. Í ferðaþjónustuumfjöllun Greiningardeildar hefur verið bent á þetta og höfum við hingað til talið að verið sé að byggja of lítið. Miðað við þá uppbyggingu sem er á teikniborðinu, og hversu hratt bæst hefur við áform um hótelbyggingu á síðustu mánuðum, teljum við rétt að staldra aðeins við. Enn er þörf fyrir fleiri hótel og gistirými, en það sem nú er á teikniborðinu virðist fara langt með að fullnægja þörf á hótelrýmum ef spá um tvær milljónir ferðamanna innan þriggja ára gengur eftir.

Um 2.400 ný hótelherbergi á Höfuðborgarsvæðinu fram til 2019

Í töflunni hér að neðan má sjá hvaða fyrirætlanir um hótel hafa bæst við áætlun okkar síðan í september. Samtals eru þarna tæplega 900 herbergi, þar af 662 sem hafa bæst við áætlun skrifstofu eigna og atvinnuþróunar hjá Reykjavíkurborg. Þá eru þarna einnig önnur verkefni sem fjölmiðlar hafa fjallað um.

  

Heimildir: Reykjavíkurborg, Fréttablaðið 20. janúar sl., Greiningardeild Arion banka. Feitletrað er nýtt á áætlun Reykjavíkurborgar.

Áður en lengra er haldið er rétt að taka fram að hér er aðeins um tilkynntar fyrirætlanir að ræða. Mikil óvissa er um hvort og hvenær verður af þeim verkefnum sem við gerum hér ráð fyrir. Einnig er óvissa um stærð margra hótela – t.d. hefur verið talað um að stærð hótels við Grensásveg verði allt frá 200 og upp í 430 herbergi.

Ef við tökum ofangreind hótel og bætum þeim við þau sem áður hefur verið tilkynnt um, ásamt uppfærslum á þeim áætlunum eftir okkar bestu vitund, má áætla að framboð hótelherbergja muni aukast um 2.400 fram til ársins 2019, eða 60%. Í úttekt Greiningardeildar á ferðaþjónustunni sem gefin var út í september var aftur á móti að gert ráð fyrir 35% framboðsaukningu frá ársbyrjun 2016 fram til 2019. Í herbergjum talið nemur aukningin um 1.100 frá því í september. Sjá má að mesta framboðsaukningin verður 2018 og 2019, en það endurspeglar í raun hversu mikið hefur komið fram síðustu mánuði og óvissu um framvindu margra verkefna.

 

Heimildir: Reykjavíkurborg, Fréttablaðið 20. janúar sl., Greiningardeild Arion banka.

Um 3.700 ný hótelherbergi á landinu öllu fram til 2019 – 56% aukning

Það er ekki bara á höfuðborgarsvæðinu þar sem mikil aukning hótelframboðs er í kortunum, því á landsbyggðinni eru 1.300 herbergi áætluð, einkum á Suðurlandi, skv. úttekt í Fréttablaðinu. Þannig er útlit fyrir að heildarhótelframboð aukist um 40% fram til 2018 og 56% fram til 2019. Til samanburðar má geta að Greiningardeild spáir tveimur milljónum ferðamanna árið 2018, sem er 60% fjölgun frá 2015.

 

Heimildir: Reykjavíkurborg, Fréttablaðið 20. janúar sl., Greiningardeild Arion banka.

Ef báðar spár ganga eftir er því ekki útlit fyrir að það verði offramboð á hótelherbergjum. Aftur á móti ef fjölgun hótela verður meiri og ef við erum verulega að ofspá fjölgun ferðamanna, er nokkuð ljóst að offramboð verður á hótelherbergjum.

Herbergjanýting mjög góð – en tölur hafa verið endurskoðaðar niður á við

Önnur ástæða sem okkur finnst gefa tilefni til að staldra við fullyrðingar um aukna þörf er sú að tölur Hagstofunnar um herbergjanýtingu hafa verið færðar nokkuð niður á við. Þegar við gáfum út ferðaþjónustuúttekt okkar í september sl. virtist nýting á hótelherbergjum á höfuðborgarsvæðinu (84%) hafa verið betri en í helstu stórborgum Evrópu árið 2014. Skv. uppfærðum tölum var hún tæp 78% og því sú fimmta besta. Það er samt sem áður mjög góð nýting. Í fyrra jókst nýting almennt utan sumartímans, en síðasta sumar dróst nýtingin aðeins saman, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Nýting batnaði því um þrjú prósentustig á landinu öllu (var 65% árið 2015) og eitt prósentustig á Höfuðborgarsvæðinu (var 79% árið 2015). Ekki hafa verið birtar tölur fyrir janúar sl. en þó má nefna að nýtingarhlutfall Icelandair hotels var 61% sem er 6 prósenta samdráttur milli ára.

 

Heimild: Hagstofa Íslands

Ástæða til að fylgjast náið með framvindunni

Þessar vangaveltur og áætlanir þýða ekki að það sé búið að byggja of mikið af hótelum. Eins og við höfum séð eru nýtingarhlutföll enn mjög góð, þrátt fyrir talsverða framboðsaukningu árið 2015. Þetta þýðir ekki heldur að það sé verið að fara að byggja of mikið. Eins og er ríma fyrirætlanir um hóteluppbyggingu ágætlega við spár um fjölgun ferðamanna og raunar virðist sem það gæti verið skortur til skamms tíma. Það getur þó ýmislegt breyst og ef tilkynnt verður um nýjar hótelbyggingar á næstunni með álíka hraði og síðustu misseri gætu gul ljós kviknað í mælaborðinu.