Áhrif olíuverðs á íslensk heimili

Áhrif olíuverðs á íslensk heimili

„Olíuverð lækkar meira/enn/skarpt/áfram“ voru sennilega meðal algengustu titla á fréttagreinum árið 2015. Raunar bendir hraðsoðið yfirlit yfir helstu ljósavakamiðla landsins til þess að í kringum 70 greinar báru slík heiti, en greinar um olíuverð og olíumarkaðinn voru þó langtum fleiri. Þessi mikla umfjöllun og áhugi á olíuverði kemur í sjálfu sér ekki á óvart í ljósi verðhruns hráolíu í fyrra og mikilvægi olíuverðs fyrir alla landsmenn á einn eða annan hátt.

Frá miðbiki ársins 2014 hefur verð á tunnu af Brent hráolíu, mælt í dollurum, lækkað um 70%. Líkt og við höfum áður bent á endurspeglast verðlækkun hráolíu ekki að fullu í verði á bensínlítra við dæluna enda stendur hráolía aðeins að litlum hluta undir heildarverðinu. Engu að síður hefur verð á bensínlítra lækkað um 23% frá júní 2014. Slík lækkun skiptir töluverðu máli fyrir íslensk heimili, en rekstur bifreiða nemur í kringum 11% af neyslu þeirra samkvæmt þjóðhagsreikningum. Breytingar í olíuverði geta þannig skert eða aukið neyslumöguleika heimilanna á öðrum vörum. Ef eldsneyti er helmingur kostnaðar við rekstur bifreiða má áætla að heimilin hafi sparað tæpa sjö milljarða á verðlækkun bensínlítrans árið 2015, að öllu öðru óbreyttu. Vísbendingar eru um að hluti þess hafi farið í beinan sparnað, en hann hefur aukist skv. nýjustu Peningamálum. Aftur á móti hefur verið mikil aukning í utanlandsferðum, raftækjasölu og bílasölu, sem skýrist mögulega að hluta af lægra olíuverði.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Bloomberg, Greiningardeild Arion banka

Lækkun olíuverðs eykur eigið fé heimila

Þegar talað er um bein áhrif olíuverðs á íslensk heimili hugsa flestir eflaust til verðskiltanna fyrir utan bensínstöðvar landsins. Verð á bensínlítra skiptir vissulega máli, en áhrif olíuverðs á heimilin eru þar með ekki upptalin.

Eldsneytisverð vegur þungt í vísitölu neysluverðs (VNV), eða 3,7%. Til samanburðar má nefna að föt og skór vega 4,5% og rafmagn og hiti 3,4%. Lækkun olíuverðs hefur gegnt lykilhlutverki í að halda aftur af verðbólguþrýstingi undanfarna mánuði. Áhrif olíuverðslækkana koma fram bæði með beinum og óbeinum hætti í VNV: Beinu áhrifin koma fram í gegnum lækkun á bensínliðnum á meðan óbeinu áhrifin koma fram í lækkandi aðfangaverði til fyrirtækja. Þannig hefur lækkun olíuverðs, ásamt reyndar verðlækkun annarra hrávara á heimsmarkaði og styrkingu krónunnar, skapað svigrúm fyrir fyrirtæki til að takast á við þær miklu launahækkanir er samið var um á síðasta ári í stað þess að velta þeim beint út í verðlagið.

Myndin hér að neðan sýnir hvernig ársverðbólga hefði þróast ef bensínliðurinn hefði haldist óbreyttur frá ársbyrjun 2014. Líkt og sjá má hefði verðbólgan verið ívið meiri og farið yfir verðbólgumarkmið Seðlabankans á seinni hluta síðasta árs. Öllu auðveldara er að henda reiður á bein áhrif olíuverðslækkana á verðbólgu heldur en þau óbeinu. Þó má ætla að ef óbeinu áhrifin væru einnig tekin með í reikninginn væri mismunurinn nokkuð meiri.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Olíuverðslækkun hefur bein áhrif á efnahagsreikning fjölmargra íslenskra heimila í gegnum VNV og þannig verðtryggingu húsnæðislána. Lækkun olíuverðs heldur aftur af verðbólgu þannig að verðtryggð húsnæðislán hækka minna en ella. Þessu er öfugt farið ef olíuverð hækkar. Hér að neðan eru áhrif olíuverðslækkana á greiðslubyrði og eftirstöðvar verðtryggðra lána athuguð. Miðað er við 40 ára verðtryggð jafngreiðslulán sem bera sambærilega vexti og Íbúðalánasjóður hefur boðið upp á hverju sinni. Lánin eru uppreiknuð annars vegar m.v. VNV og hinsvegar m.v. VNV ef bensínliðurinn hefði staðið í stað frá ársbyrjun 2014.

Í töflunni hér að neðan sýnir efri talan samanlagða lækkun greiðslu, þ.e. mismuninn á því sem greitt hefði verið ef olíuverð hefði ekki lækkað og því sem greitt er í raun. Þannig hefði heimili með 15 milljón króna lán frá árinu 2005 verið búið að greiða 12 þúsund krónum meira í heildina ef olíuverð hefði staðið óbreytt frá ársbyrjun 2014 en það gerði í raun. Neðri talan sýnir aftur á móti lækkun eftirstöðva lánsins sem rekja má til olíuverðslækkunar. Ef við lítum aftur á 15 milljón króna lánið þá hefði það staðið í 23,3 milljónum í dag ef olíuverð hefði haldist óbreytt, en ekki 23,1 milljón líkt og raun er. Olíuverðslækkunin eykur þannig veðrými heimilanna þar sem eigið fé þeirra í eigninni er hærra en ella.

Heimildir: Greiningardeild Arion banka

Olíuverðslækkun jákvæð fyrir vöruviðskipti

Árið 2015 nam innflutningur á bensíni og olíu alls 83 ma.kr., sem er 19% samdráttur frá árinu áður, á gengi hvors árs. Að magninu til jókst innflutningurinn aftur á móti um 13%. Lækkun olíuverðs sparaði þannig þjóðarbúinu ca. 35 ma.kr. að öðru óbreyttu, þ.e.a.s. ef við lítum framhjá því að líklegast hefði innflutt magn aukist eitthvað minna ef ekki hefði komið til verðlækkunar. Til að setja þetta í samhengi og sýna hversu mikið er í húfi fyrir þjóðarbúskapinn getum við sagt sem svo: Ef olíuverð hefði ekki lækkað í fyrra þá hefðu vöruskipti við útlönd, miðað við innflutt magn árið 2015, verið óhagstæð um 65 ma.kr. í stað 30 ma.kr.

Heimildir: Greiningardeild Arion banka

Olíuverðslækkanirnar að undanförnu hafa komið sér vel fyrir heimili, fyrirtæki, utanríkisviðskipti og þar með greiðslujöfnuðinn. Upplýsingastofnun Bandaríkjanna um orkumál, EIA, telur að olíuverð taki að þokast upp á við á árinu og verði í kringum 40 dollara á tunnu en hækki í 52 dollara árið 2017. Slík hækkun, jafnvel þótt lítil sé, mun ýta undir verðbólguþrýsting, bæði beint og óbeint, og draga úr ráðstöfunartekjum heimilanna. Erfitt er þó að ætla að reyna að spá fyrir um olíuverð enda mikil óvissa á markaðnum. Þannig gæti olíuverð hækkað töluvert meira á árinu ef dregið verður hressilega úr framboði eða haldið áfram að lækka, þótt sú þróun verði að teljast öllu ólíklegri. Ef olíuverð hækkar, eða lækkar a.m.k. ekki, meira má búast við að jákvæðu áhrifin á verðbólgu og þar með verðtryggð lán taki að fjara út. Það er því full ástæða fyrir heimili þessa lands að halda áfram að fylgjast grannt með þróun olíuverðs í heiminum.