Verðlag hækkar um 0,68% í febrúar

Verðlag hækkar um 0,68% í febrúar

Verðbólga í febrúar mældist 2,2% og hefur verðbólgan nú haldist undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans í tvö ár. Allar líkur eru á að verðbólgan haldist áfram undir markmiði vel inn á sumarið en fari svo hækkandi með haustinu. Samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar hækkaði vísitala neysluverðs (VNV) um 0,68% í febrúar og var mælingin lítillega yfir okkar spá um 0,6% hækkun. Spár greiningaraðila lágu á nokkuð breiðu bili eða frá 0,3% til 0,6%. Líkt og jafnan í febrúar gengu útsöluáhrifin til baka og hækkuðu því föt og skór annars vegar og húsgögn og heimilisbúnaður hins vegar. Einnig hækkaði húsnæðisliðurinn myndarlega ásamt tómstundum og menningu. Á hinn bóginn lækkaði eldsneytisverð og flugfargjöld til útlanda.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Spá okkar fyrir næstu mánuði stendur í stað og spáum við að verðlag hækki um 0,5% í mars, 0,3% í apríl og 0,1% í maí. Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan standa í 1,6% í maí.

Útsöluáhrifin ganga til baka og raftæki hækka í verði

Föt og skór hækkuðu um rúm 6% milli mánaða (+0,25% áhrif á VNV) en við spáðum 5% hækkun. Tollabreytingarnar virðast ekki draga úr verðhækkunum að neinu ráði og er líklegt að áhrif vegna tollabreytinga muni dreifast frekar yfir næstu mánuði. Þá kom á óvart 7,6% hækkun á húsgögnum og heimilisbúnaði (+0,30% áhrif á VNV) sem er nokkuð umfram okkar spá. Þá hækkaði einnig liðurinn tómstundir og menning (+0,15% áhrif á VNV) og vegur þar þyngst hækkun á verði sjónvarps- og hljómtækja. Hækkun raftækja litar því verðbólgutölurnar í febrúarmánuði og er um meiri hækkun að ræða en sést hefur undanfarin ár.

Ekkert lát á hækkun húsnæðisverðs

Ekki kemur á óvart að húsnæðisverð heldur áfram að hækka og nemur hækkunin 1% um land allt milli mánaða. Athygli vekur 3% hækkun húsnæðisverðs utan höfuðborgarsvæðisins en mælingin byggist á fáum samningum og skýrir það töluvert flökt á liðnum. Húsnæðisliðurinn hefur samtals 0,19% áhrif til hækkunar á VNV en þar af hefur reiknuð húsaleiga 0,16% áhrif til hækkunar og greidd húsaleiga 0,03% áhrif til hækkunar.

Flugfargjöld lækka í verði ásamt eldsneyti

Flugfargjöld til útlanda lækkuðu um 12% í verði (-0,16% áhrif á VNV) en við spáðum 8% lækkun. Þá lækkaði einnig eldsneytisverð (-0,05% áhrif á VNV) og hafði ferðaliðurinn samtals 0,22% áhrif til lækkunar á VNV. Gera má ráð fyrir að flugliðurinn hækki næstu mánuði eftir lækkun undanfarna tvo mánuði.

Dregur úr áhrifum innfluttrar verðhjöðnunar

Hækkun verðlags í febrúar var nokkuð umfram spár greiningaraðila og vekur athygli okkar að lækkun á verðlagi innfluttra virðist fara dvínandi. Innflutt verðhjöðnun hefur haldið aftur af verðbólgu undanfarin misseri og má rekja þá þróun til styrkingar krónunnar og lækkunar hrávöruverðs. Ef viðsnúningur verður í þeim efnum mun það hafa veruleg áhrif á verðbólguþróun framundan. Ólíklegt er að hrávöruverð lækki verulega á næstunni, umfram þær lækkanir sem nú þegar eru komnar fram, en spurning er hvort krónan styrkist þegar líður á árið.  

 

Heimild: Hagstofa Íslands

Má búast við miklu gjaldeyrisinnstreymi í sumar og frekari styrkingu krónunnar?

Mikil gjaldeyriskaup Seðlabankans undanfarið hafa vakið athygli okkar og er það vísbending um töluvert gjaldeyrisinnflæði þótt hluti af innflæðinu skýrist vissulega af nauðasamningum. Í sumar má svo gera ráð fyrir frekara gjaldeyrisinnflæði í kringum háannatíma ferðaþjónustunnar. Ef horft er á þróunina í fyrra má sjá umtalsvert árstíðabundið innflæði með því að líta á gjaldeyriskaup Seðlabankans en þau voru einna mest yfir sumartímann og þrátt fyrir það styrktist gengi krónunnar. Það má því velta fyrir sér hvort styrking krónunnar haldi áfram þegar líður á sumarið. Ef sú verður raunin gæti það viðhaldið lækkandi verðlagi innfluttra vara og dregið úr verðbólguþrýstingi líkt og sést hefur undanfarin misseri. Aftur á móti ef gengi krónunnar stendur í stað eða jafnvel veikist í tengslum við fyrstu skref í átt að losun hafta má áætla að það endurspeglist fljótt í aukinni verðbólgu.  

Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Verðbólguþróun næstu mánuði:

  • Mars +0,5%: Föt og skór hækka áfram eftir útsölur í janúar en einnig hækkar flugliðurinn auk húsnæðisliðarins.
  • Apríl +0,3%: Fasteignaverð og flugfargjöld hækka.
  • Maí +0,1%: Hótel og veitingastaðir, aðrar vörur og þjónusta hækka ásamt fasteignaverði.

Heimildir: Hagstofa Íslands, spá Greiningardeildar Arion banka